Ný dagbók í kjölfar árásar

Hakkarar gerðu árás á hlaup.com og voru allar dagbækur hlaupara …
Hakkarar gerðu árás á hlaup.com og voru allar dagbækur hlaupara eyðilagðar í árásinni mbl.is

Hlaupavefurinn hlaup.is mun innan nokkurra vikna setja í loftið hlaupadagbók þar sem hlauparar geta skráð sínar upplýsingar. Árás var gerð á vefinn hlaup.com í lok júlí og vefurinn eyðilagður, öll gögn, gagnagrunnur og skrár. Eigandi hlaup.com hefur lokað vefnum og ætlar ekki að setja hann í loftið á ný.

Torfi H. Leifsson, eigandi hlaup.is, segir að talsvert sé síðan að byrjað var að undirbúa uppsetningu hlaupadagbókar á hlaup.is í tengslum við endurbætt á úrslitakerfi og fleiri verkefni. Nú hafi hins vegar verið settur aukinn kraftur í hlaupadagbókarverkefnið vegna árásarinnar sem hlaup.com varð fyrir. Það sé skelfilegt að hugsa til þess að allar upplýsingar hafi glatast í árásinni.

Að sögn Torfa er ætlunin að bjóða upp á að hlauparar geti flutt upplýsingar um fyrri hlaup sem vistuð eru í hlaupaúrum viðkomandi beint inn í hlaupadagbókina á hlaup.is. Eins ef hlauparar eiga upplýsingar í excel-skjölum verði hægt að færa þær beint inn á vefinn.

Torfi segir að aukinn kraftur hafi verið settur í vinnuna við að setja upp dagbókina en ekki liggi endanlega fyrir dagsetning á því hvenær hún fari í loftið. Eins hefur ekki verið ákveðið hvort notendur þurfi að greiða fyrir dagbókina en talsverður kostnaður fylgir forritun á slíkum vef.

Vefurinn hlaup.is er hýstur hjá Þekkingu sem er vottað hýsingarfyrirtæki en Torfi hefur rekið vefinn í sextán ár. „Ég er með vottaðan hýsingaraðila sem sér um minn vef,og afritunartöku og tæknilegan rekstur. Þannig að þetta efni verður varið eins og hægt er,“ segir Torfi í samtali við mbl.is.

Samkvæmt upplýsingum frá einstaklingum sem áttu hlaupadagbók á hlaup.com voru ekki til nein afrit af gagnagrunnum síðunnar. Nokkur þúsund hlauparar geymdu hlaupagögn sín inni á þeim vef en um endurgjaldslausa þjónustu var að ræða.

Á Facebooksíðu Félags maraþonhlaupara hafa ýmsir hlauparar skrifað um málið og sammála um það óeigingjarna starf sem eigendur hlaup.com lögðu í vefinn, hlaupurum að kostnaðarlausu. Virðast hlauparar vera reiðubúnir til þess að greiða fyrir slíka þjónustu og velta fyrir sér hvort það sé ekki eðlilegt fyrir hýsingu á hlaupadagbókum.

Auk hlaupadagbóka þá eyðilögðust afrekaskrár á hlaup.com en flestar þeirra er einnig að finna á hlaup.is fyrir utan árangur í hlaupum erlendis.

mbl.is