Töpuðu 2,7 milljörðum í kaupum á HS

Í upphaflegum tillögum Orkuveitu Reykjavíkur var að finna hugmyndir um …
Í upphaflegum tillögum Orkuveitu Reykjavíkur var að finna hugmyndir um sameiningu við Hitaveitu Suðurnesja. mbl.is/Hjörtur

Orkuveita Reykjavíkur tapaði 2.669 milljónum króna vega kaupa á hlutabréfum í Hitaveitu Suðurnesja. Nefnd sem gerði úttekt á starfsemi Orkuveitunnar segir að ákvörðun um kaupin hafi verið gerð „án nægilegs undirbúnings“ og þau hafi valdið „fyrirtækinu verulegum fjárhagslegum skaða“.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur tók ákvörðun um að kaupa hlut í Hitaveitu Suðurnesja (HS) á miðju ári 2007. Í mars það ár hafði einkavæðingarnefnd ákveðið að auglýsa til sölu hlut ríkisins í fyrirtækinu. Full samstaða var í stjórn OR um að kaupa hlutabréfin. Stjórnin taldi að þetta væri „vænlegur fjárfestingarkostur“. Með kaupunum yrðu stigin „fyrstu skref í átt að sameiningu Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja“ og að veruleg samlegðaráhrif væru í rekstri fyrirtækjanna.

Skuldbatt sig til að kaupa hlut Hafnarfjarðar

Orkuveitan keypti í upphafi 16,6% hlut í HS, en skuldbatt sig jafnframt til að kaupa 15,4% hlut Hafnarfjarðarbæjar. Kaupverðið á þessum 32% hlut var 27,2 milljarðar á verðlagi ársins 2010.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sat á þessum tíma í stjórn OR og studdi kaupin eins og aðrir stjórnarmenn enda hafi hún viljað að orkufyrirtækin væru í almenningseign. Hún segir í viðtali við úttektarnefndina að eftir á að hyggja sé ljóst að þessi kaup hafi „upptakturinn að REI“ [Reykjavik Energy Invest] og að þetta hafi verið partur að REI-pakkanum.

REI-málið kom upp haustið 2007, en ekkert varð úr áformum þáverandi stjórnenda OR um að Orkuveitan færi í útrás á erlendri grundu.

Var tekið tillit samkeppnislaga?

Samkeppniseftirlitið gerði hins vegar athugasemdir við að Orkuveitan væri orðið stór hluthafi í Hitaveitu Suðurnesja. Úttektarnefndin óskaði eftir upplýsingum um, hvort aflað hafi verið álits lögmanna eða annarra sérfræðinga á því fyrir kaupin hvort samkeppnislög stæðu í vegi fyrir þeim. „Viðmælendur úr röðum stjórnarmanna sem komu að kaupunum hafa fullyrt að svo hafi verið, en úttektarnefndin hefur í störfum sínum ekki getað staðfest þær fullyrðingar,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

Eftir að athugasemdir Samkeppniseftirlitsins komu fram óskaði Orkuveitan eftir því við Hafnarfjarðarbæ að hætt yrði við kaupin á hlut bæjarins í HS. Því var hafnað. Málið fór fyrir héraðsdóm sem dæmdi Hafnarfjarðarbæ í vil. Orkuveitan ákvað að áfrýja ekki þeim dómi heldur standa við skuldbindingu sína.

Orkuveitan neyddist til að selja með tapi

Í ágúst 2008 ákvað stjórn OR að selja eignarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja, sem þá hafði fengið nafnið HS Orka. Gengið var síðan frá sölu á hlutnum í desember það ár til kanadíska fyrirtækisins Magma, sem hafði keypt sig inn í HS Orku. 

Andstaða var við söluna innan VG, en Guðlaugur G. Sverrisson, þáverandi stjórnarformaður OR, brást við henni með því að bjóða ríkinu að kaupa hlutinn. Hann lýsir samskiptunum við Steingrím J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, með þessum hætti í viðtali við nefndina: Hann hafi viljað „spá og „spekulera“ hvort hann gæti fengið lífeyrissjóði til að kaupa þetta eða eitthvað slíkt.“ Sannleikurinn hafi hins vegar verið sá að hann hafi ekki mátt skuldbinda ríkissjóð vegna aðgerðaráætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „En til þess að gera langa sögu stutta, þá bara gat hann ekki keypt þetta,“ sagði Guðlaugur um aðkomu Steingríms að málinu.

Niðurstaðan varð því sú að Magma keypti hlut Orkuveitunnar í HS Orku og þurfti OR að bókfæra 2.669 milljóna tap vegna viðskiptanna.

Keypt „án nægilegs undirbúnings“

Upphafleg kaup Orkuveitunnar voru fjármögnuð með láni sem er með gjalddaga 2013, en það eru ærið mörg lán sem Orkuveitan þarf að borga það ár. Samningurinn um sölu til Magma gerði ráð fyrir að kaupverðið yrði greitt á sjö árum. Skuldabréfið er að hluta tengt álverði og tryggt með veði í hlutabréfum í HS Orku.

„Að mati úttektarnefndarinnar eru kaup Orkuveitu Reykjavíkur á Hitaveitu Suðurnesja og fjármögnun þeirra kaupa, ein af ástæðum fyrir núverandi fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins. Kaupin áttu sér afar skamman aðdraganda og svo virðist sem ekki hafi verið leitað til sérfræðinga til að kanna áreiðanleika þeirra upplýsinga sem tiltækar voru við söluna t.d. með áreiðanleikakönnun sem verður að teljast eðlilegt að láta framkvæma við kaup af þessari stærðargráðu. Einnig geta þeir verðútreikningar á félaginu, sem lágu til grundvallar við kaupin, í besta falli talist vera takmarkaðir. Svo virðist sem ekki hafi heldur verið leitað til sérfræðinga til að skoða möguleika fyrirtækjanna á að sameinast, en bæði störfuðu á sama samkeppnismarkaði,“ segir í skýrslu úttektarnefndarinnar um þessi viðskipti. „Hér virðist því hafa verið tekin ákvörðun um að kaupa hlut í félaginu án nægilegs undirbúnings og með því valdið fyrirtækinu verulegum fjárhagslegum skaða, sem hefði líklega verið hægt að komast hjá með betri undirbúningi ákvörðunarinnar.“

Orkuveitan skuldbatt sig árið 2007 til að kaupa 32% hlut …
Orkuveitan skuldbatt sig árið 2007 til að kaupa 32% hlut í HS Orku. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert