Kaþólska kirkjan tók þátt í þöggun

Rannsóknarnefnd um kaþólsku kirkjuna kynnir skýrslu sína í Þjóðmenningarhúsi.
Rannsóknarnefnd um kaþólsku kirkjuna kynnir skýrslu sína í Þjóðmenningarhúsi. mbl.is/Kristin

Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar kemst að þeirri niðurstöðu að kaþólska kirkjan hafi reynt að þagga niður upplýsingar um andlegt ofbeldi í Landakotsskóla.

Nefndin var skipuð í ágúst 2011 í kjölfar ásakana sem bornar voru á fyrrverandi starfsmenn kaþólsku kirkjunnar um andlegt og líkamlegt ofbeldi gagnvart nemendum sem stunduðu nám við skóla kirkjunnar. Í nefndinni áttu sæti Hjördís Hákonardóttir, fyrrverandi Hæstaréttardómari, sem var formaður nefndarinnar, Hrefna Friðriksdóttir dósent og Jón Friðrik Sigurðsson prófessor.

Nefndin leitaði víða heimilda, en lítið var til af skriflegum gögnum.

Nefndin ræddi við 85 einstaklinga sem höfðu verið í skóla kirkjunnar eða verið í sumardvöl á vegum kirkjunnar. Þessar frásagnir tengjast tímabilinu 1946-2003. Tilvikin tengjast öll séra Georg, fyrrverandi skólastjóra Landakotsskóla og Margrétar Muller, kennara við skólann. Að auki er fjallað um ásakanir sem uppi hafa komið á hendur þremur öðrum ónafngreindum aðilum, um var að ræða einn kennara og tvo presta.

Alls sögðust 8 hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. 27 lýstu andlegu ofbeldi, í fáeinum tilvikum líkamlegu.

Hjördís tók skýrt fram að það var ekki hlutverk þessar nefndar að leggja mat á sannleiksgildi þessara frásagna.

Nefndin átti hins vegar að fjalla um viðbrögð kirkjunnar við ásökunum um ofbeldi. Ekki nærri allir létu kirkjuna vita um að þau hefðu sætt ofbeldi eða kvörtuðu undan því.

Í skýrslunni er lýst þeim ásökunum sem fram komu á sínum tíma og hvenær þær komu fram. Fimm lýstu yfir kynferðislegu ofbeldi og fleiri kvörtuðu undan andlegu ofbeldi.

Nefndin fjallar um hvort hægt sé að tala um að þöggun hafi verið að ræða og kemst að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið af hálfu kaþólsku kirkjunnar varðandi andlegt ofbeldi í skólanum. Nefndin telur að í einu tilviki hafi kirkjan gert mistök við varðveislu gagna þó að fyrir liggi að lögð hafi verið fram skrifleg kvörtun. Reglusystur og prestar hafi gert mistök við rannsókn mála.

Síðasta tilvikið um andlegt ofbeldi eða einelti er frá árinu 2003. Síðasta tilvikið um kynferðislegt ofbeldi er frá árinu 1988.

Nánar verður fjallað um skýrsluna á mbl.is í dag.

Landakotskirkja
Landakotskirkja mbl.is/ÞÖK
mbl.is
Loka