Vegagerðin biðst velvirðingar

Bílar hafa skemmst vegna tjörublæðingar
Bílar hafa skemmst vegna tjörublæðingar mbl.is/Skapti

Unnið hefur verið að hreinsun á vegunum þar sem tjörukögglar hafa dreifst og verður því haldið áfram næstu daga. Vegagerðin segir erfiðara að eiga við þá kafla þar sem tjörublæðingarnar eru upprunnar. Þar var lífolía notuð í slitlagið, en Vegagerðin segir um samspil margra þátta að ráða.

„Vetrarblæðingar hafa verið óvenju miklar að undanförnu. Ekki er nákvæmlega vitað af hverju þær verða en líklega er um að ræða samspil tíðarfarsins, þess að það skiptist á þýða og frost og þess að hálkuvarnir, sand- og saltnotkun hefur verið mikil síðustu vikur,“ segir í tilkynningu sem Vegagerðin sendi frá sér nú síðdegis.

Lífolía sem íblöndunarefni

Mest hefur verið um blæðingar í Húnavatnssýslum vestan við Blönduós en tjörukögglar hafa dreifst víða um vegakerfið á Vestur- og Norðurlandi. Á þeim köflum þar sem mestu blæðingarnar eru var lífolía notuð í malbikið. Segir Vegagerðin að vetrarblæðingar, í mun minna mæli, hafi þekkst síðan 1995, þegar notuð voru önnur íblöndunarefni.

Vegagerðin hefur í dag unnið að hreinsun á vegunum þar sem tjörukögglar hafa dreifst og mun halda því áfram í dag og næstu daga haldi þetta ástand áfram. Erfiðara er við að eiga þá kafla þar sem blæðingarnar eru upprunnar. Í næstu þýðu verður gerð tilraun með að dreifa steinefni í valda kafla til að stemma stigu við frekari blæðingum.

Þá verða sett upp sérstök varúðarskilti vegna tjörublæðinganna og einnig skilti þar sem varað er við steinkasti (tjörukögglum).

Mikilvægt að draga úr hraðanum

„Vegagerðin biður vegfarendur velvirðingar á  þessu ástandi og hvetur ökumenn til þess að gæta varúðar, sérstaklega þegar bílar mætast á þessum svæðum. Mikilvægt að draga úr hraða þegar bílar mætast,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Sé um tjón að ræða þarf að fylla út tjónsskýrslu hjá Sjóvá og síðan verður tekin afstaða til bótaskyldu. Ef um verulega óhreina bíla er að ræða mákoma með þá á þjónustustöðvar Vegagerðarinnar á Akureyri, Borgarnesi, Sauðárkróki, Búðardal, Ólafsvík eða í Reykjavík, láta skoða bílinn og fá beiðni fyrir þrifum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina