„Kornin sem fylltu mælinn“

Jón Bjarnason, alþingismaður.
Jón Bjarnason, alþingismaður. mbl.is/Árni Sæberg

Brottrekstur Jóns Bjarnasonar úr utanríkismálanefnd og sú ákvörðun flokksfélaga hans að hindra að þingsályktunartillaga hana um að leggja aðildarumsóknina að ESB til hliðar voru „kornin sem fylltu mælinn“ og leiddu til þeirrar ákvörðunar hans að segja sig úr þingflokknum.

Sem kunnugt er var Jóni vikið úr utanríkismálanefnd mánudaginn 14. janúar en fyrir lá þingsályktunartillaga hans um að leggja umsóknina til hliðar þangað til þjóðin samþykkti að óska bæri eftir aðild.

Áður hafa þau Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmunur Einar Daðason sagt sig úr þingflokki VG en Þráinn Bertelsson komið í staðinn. Með brotthvarfi Jóns eru því 11 þingmenn eftir í þingflokki VG en hann verður óháður þingmaður.

„Það er ljóst að okkur hefur greint á um umsóknarferlið og aðlögunina að Evrópusambandinu. Þingflokkurinn krafðist þess að ég viki úr utanríkismálanefnd vegna afstöðu minnar til þessa grundvallarmáls. Um leið mátti tillaga sem ég hef staðið fyrir í utanríkismálanefnd að umsóknin verði afturkölluð og fari ekki í gang nema þjóðin ákveði það ekki einu sinni fara inn í þingið. Þetta voru kornin sem fylltu mælinn.“

„Ég minni á að ég hef verið þingmaður Vinstri grænna allt frá stofnun 1999 og hef átt verulegan þátt í að móta grunnstefnu flokksins. Ég hef bæði verið þingmaður og ráðherra flokksins þannig að þetta er í sjálfu sér erfið ákvörðun. En þó líka augljós.“

Hefur verið trúr grunnstefnunni

Jón minnir á að andstaðan við aðild að ESB sé einn af hornsteinum flokksins.“ 

„Andstaðan við aðild að Evrópusambandinu er eitt af grundvallarstefnumálum VG. Flokkurinn var meðal annars stofnaður um sjálfstæða utanríkisstefnu og að við myndum ekki sækja um aðild að ESB. Þeirri stefnu hef ég fylgt og verið trúr. Þegar sú krafa kom að mér yrði vikið úr utanríkismálanefnd vegna þessarar stefnu minnar, sem jafnframt er stefna flokksins að mínu mati, að þá fylltist mælirinn.“ 

Jón úr þingflokki VG

mbl.is