Augljós þörf fyrir bætt vinnubrögð

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, flutti tillögu að stjórnmálaályktun flokksins.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, flutti tillögu að stjórnmálaályktun flokksins. mbl.is/Kristinn

„Á næsta kjörtímabili gefst ráðrúm til að móta betra þjóðfélag til framtíðar á grundvelli þess árangurs sem náðst hefur. Kjósendur eiga skýrt val um hvert skuli stefna,“ segir í tillögu að stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar sem nýkjörinn varaformaður flokksins, Katrín Júlíusdóttir, flytur nú.

Þar segir einnig: „Áskorunin sem stjórnmálaflokkar standa frammi fyrir er að endurnýja vonina um réttlátara samfélag og trú landsmanna á framtíðina, á tækifæri og möguleika. Meginverkefnið er að tryggja fjölbreytta atvinnu, tekjur, velferð og jöfnuð í anda norrænna jafnaðarmanna og sjálfbærrar þróunar.“

Og einnig: „Augljós þörf er fyrir bætt vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum og nýja samskiptahætti. Þar vill Samfylkingin slá nýjan tón. Jafnaðarmenn vilja hvetja til samstarfs um mikilvæg hagsmunamál þvert á flokka og leggja áherslu á vandaða umræðu og víðtækt samráð við undirbúning mikilvægra ákvarðana.“

Enginn kvaddi sér hljóðs eftir ræðu Katrínar og var stjórnmálaályktun flokksins samþykkt samhljóða.

Hana má finna í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina