Ólafur krafðist endurupptöku hæstaréttarmáls

Hreiðar Már Sigurðsson og Ólafur Ólafsson í héraðsdómi í dag.
Hreiðar Már Sigurðsson og Ólafur Ólafsson í héraðsdómi í dag. mbl.is/Kristinn

Ragnar Halldór Hall, verjandi Ólafs Ólafssonar, sem er einn sakborninga í Al Thani-málinu, fór þess á leit við Hæstarétt í febrúar að mál ákæruvaldsins gegn Ólafi og Magnúsi Guðmundssyni, sem dæmt var í Hæstarétti í desember sl. yrði endurupptekið. Ólafur telur verulegan galla á meðferð málsins.

Í bréfi sem Ragnar sendi Hæstarétti kemur fram, að Ólafur hafi fengið fregnir af því að 23. nóvember sl. hafi verið haldinn fundur í Ákærendafélaginu þar sem dagskrárefnið muni hafa verið greinargerð rannsakenda í málinu samkvæmt 56. gr. laga um meðferð sakamála. Auk félagsmanna hafi Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari mætt á fundinn. Segir að Eiríkur hafi tekið virkan þátt í umræðum og svarað spurningum sem til hans var beint um efni 56. greinina.

Tekið er fram að Ólafur hafi ekki undir höndum gögn sem staðfesti þessa lýsingu en hann gangi út frá því að Hæstiréttur beri það undir dómarann hvort hér sé rétt frá greint.

„Skjólstæðingur minn telur verulegan galla á meðferð málsins fyrir Hæstarétti að þar hafi setið dómari sem tekið hafi þátt í lokuðum fundi með ákærendum, eftir að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir og hafði verið kærður til Hæstaréttar, og fjallað þar um álitaefni sem dæmt  hafði verið um í héraðsdómnum,“ segir í bréfinu.

Í umræddu hæstaréttarmáli, nr. 703/2012, var m.a. tekist á um framlagningu skjals sem í málsgögnum sem í málsgögnum sé nefnt greinargerð rannsakenda. Ólafur hélt því fram að skjalið ætti ekkert sameiginlegt með greinargerð samkvæmt 56. gr. laga um meðferð sakamála, ef frá væru taldar fyrstu 15 síðurnar. Skjalið væri að öðru leyti samfelldur, skriflegur málflutningur á 112 síðum með 644 neðanmálsgreinum. Skjalið gæti því ekki talist sönnunargagn í skilningi laga um meðferð sakamála. Segir að skýrslur ákærðu og vitna fái ekki hlutlæga umfjöllun í þessu skjali.

Þá segir að þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi komist að því að skjalið væri með aðfinnsluverðum annmörkum og mörgum atriðum sem ættu ekki heima í skýrslu sem þessari, þá hafði það engar afleiðingar. A.m.k. ekki þær að málinu var vísað frá dómi af þessum sökum, líkt og Ólafur gerði kröfu um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert