Þurfa að afhenda samninga

Húsasmiðjan
Húsasmiðjan mbl.is/Ómar

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Húsasmiðjunni beri að afhenda sérstökum saksóknara ráðningarsamninga tiltekinna starfsmanna. Hins vegar þarf Húsasmiðjan ekki að láta af hendi fundargerðir stjórnar frá janúar 2010 til og með mars 2011.

Upphaf málsins má rekja til þess að Samkeppniseftirlitinu barst kæra í nóvember 2010 um meint brot starfsmanna Húsasmiðjunnar, Byko og byggingavöruverslunarinnar Úlfsins. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, sem rann síðar inn í sérstakan saksóknara, gerði húsleitir hjá framangreindum fyrirtækjum í mars 2011, í samvinnu við Samkeppniseftirlitið, að fenginni heimild héraðsdóms.

Lagt var hald á nokkurt magn gagna og tekin skýrsla af fjölda starfsmanna. Til rannsóknar var meint ólögmætt samráð fyrirtækjanna á markaði með svokallaða grófvöru, það er steinull, gifsplötur, spónaplötur og timbur.

Ráðningasamningarnir voru gerðir við sjö starfsmenn sem eru undir rökstuddum grun um að hafa framið refsivert brot í störfum sínum í þágu Húsasmiðjunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert