Sögulegur áfangi í umferðarmálum

Færri banaslys urðu árið 2012.
Færri banaslys urðu árið 2012. Ómar Óskarsson

„Þarna má sjá sögulega áfanga í umferðamálum á Íslandi. Sérstaklega ef tekið er tillit til fækkunar slysa hjá börnum og ungmennum. Mig langar samt að undirstrika að við erum að tala um gríðarlegar fórnir sem eru óásættanlegar. Því megum við ekki gleyma okkur í gleðinni og það er óásættanlegt þegar slys verða,“ segir Einar Magnús Magnússon upplýsingarfulltrúi hjá Umferðastofu.

Mikil fækkun banaslysa varð í umferðinni árið 2012. Þá fækkaði einnig alvarlegum slysum þar sem alvarleg meiðsl urðu á fólki. Þróun undanfarinna ára sýnir að færri börn og ungmenni hafa látist í umferðaslysum og að ungir ökumenn valda síður slysum en áður.  Þetta kom fram í skýrslu sem umferðastofa birti í dag.

Mikil fækkun banaslysa

Fjöldi látinna í umferðinni árið 2012 var 9 sem er um 28 á hverja milljón íbúa sem er með því allra lægsta sem gerist í heiminum. Síðastliðin fimm ár (2008-2012) hafa 58 látist í umferðarslysum á Íslandi en næstu fimm ár þar á undan (2003-2007) létust 111 með sama hætti.  Er þetta um 48% fækkun. 

Alvarlega slösuðum fækkar á milli ára úr 154 í 136 eða um 12% fækkun.  Lítið slösuðum fækkar einnig talsvert, úr 1063 í 899 (15%).  Í heildina fækkar látnum og slösuðum úr 1229 í 1044 eða um 15%.

Framför á tíu árum

Þegar skoðuð eru síðustu tíu ár sést að á árinu 2012 eru margar slysatölur þær lægstu sem sést hafa í langan tíma.  Allar tölur yfir slys og slasaða eru undir meðaltali síðustu tíu ára.  Fjöldi alvarlega slasaðra hækkaði í nokkur ár fram til ársins 2010

Aldrei hafa eins fá börn slasast í umferðinni eins og árið 2012 ef að minnsta kosti er miðað þann gagnagrunn  sem stuðst er við en hann er frá 1986. Ef horft er til heildarfjölda slasaðra og látinna barna undanfarin 10 ár þá kemur í ljós að meðaltals fjöldi er 120. Árið 2012 var heildarfjöldi  88 en tekið skal fram að ekkert barn lét lífið en yngsta fórnarlamb umferðarslyss var 21. árs ökumaður.

Ekkert banaslys vegna ölvunar

Það telst jafnframt sögulegt að ekkert banaslys varð í fyrra af völdum ölvunar en þess ber þó að geta að hlutfall ölvunaraksturs af heildarfjölda slysa er lítilsháttar hærra árið 2012 en meðaltal 10 ára á undan. Meðaltalið er 5,3% en árið 2012 var það 5,7%.
 
Aldrei hafa færri gangandi vegfarendur slasast eða látist í umferðinni en árið  2012 miðað við fyrrnefndan gagnagrunn.

Akstursbann mikilvægt

Slysum meðal ungra ökumanna á aldrinum 17 – 20 ára hefur fækkað mjög og þá sérstaklega frá árinu 2007 þegar svokallað akstursbann var sett í lög. Samkvæmt því er handhafi bráðabirgðaskírteinis settur í ótímabundið akstursbann ef hann fær 4 punkta í ökuferilsskrá og/eða er sviptur ökuréttindum vegna alvarlegra umferðarlagabrota. Akstursbanninu er ekki aflétt fyrr en að loknu sérstöku námskeiði og endurtöku ökuprófs. Þótt sviptingin vegna hraðaksturs eða ölvunar sé tímabundin þá fær sá sem er á bráðabirgðaskírteini ökuréttindin ekki aftur fyrr en að loknu fyrrnefndu námskeiði og ökuprófi. Ljóst er að gríðarlegur árangur hefur náðst í fækkun slysa meðal nýliða í umferðinni með setningu laga um akstursbann árið 2007.

í skýrslunni segir jafnframt að Ökuskóli 3 sem settur var fyrst á fót árið 2010, hefur sannað gildi sitt. Í Ökuskóla 3 gefst nemendum kostur á að prófa m.a. veltibíl, skrikbíl og fá að upplifa margt það sem gerist í aðdraganda umferðarslyss og undir leiðsögn kennara læra þau hvernig forðast má slíkar aðstæður.

Unga fólkið til fyrirmyndar

Þá hefur Umferðastofa á undanförnum árum unnið að ýmis konar fræðsluverkefnum í framhaldsskólum landsins sem hafa gefist vel og nemendur hafa brugðist við af áhuga. „Það er því ljóst að margt það unga fólk sem nú er að feta sína fyrstu leið á vegum landsins er til mikillar fyrirmyndar og óhætt að trúa því að þau vitni um bjarta framtíð umferðaröryggis á Íslandi,“ segir í skýrslunni 

Lægst tíðni banaslysa á öllum norðurlöngum
Samanburður við hin Norðurlöndin sýnir að Ísland náði bestum árangri árið 2012 með 2,8 látna á hverja 100.000 íbúa.  Noregur, Danmörk og Svíþjóð eru öll með svo að segja sama fjölda látinna m.v. höfðatölu (3,1 á hverja 100.000 íbúa) en Finnar eru svo þar fyrir ofan.  Banaslysatíðni á Norðurlöndum hefur löngum verið með því allra lægsta sem gerist í heiminum.

Íbúar Norðurlands vestra lenda í flestum slysum

Síðastliðin fimm ár hafa Suðurnesjamenn lent í flestum slysum m.v. höfðatölu.  Árið 2012 bæta þeir sig hins vegar mest allra og eru það íbúar Norðurlands vestra sem lenda í flestum slysum.  Þegar helstu þéttbýlisstaðirnir eru skoðaðir eru það íbúar Reykjanesbæjar sem lenda í flestum slysum sl. fimm ár en árið 2012 eru það íbúar Ísafjarðar.  Að sama skapi bæta íbúar Reykjanesbæjar sig mest allra hvað þetta varðar.


Ölvunar og hraðakstur mest af völdum karlmanna

42 slys sem rekja má til ölvunarakstur enduðu með meiðslum árið 2012. Þar af 6 með alvarlegum meiðslum.  Af þessum 42 slysum voru karlmenn valdir að 39 en konur.

Færri slys verða í umferðinni.
Færri slys verða í umferðinni. Ómar Óskarsson
Einar Magnús Einarsson
Einar Magnús Einarsson Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is