Kynhneigð getur kostað hana lífið

Kasha Jacqueline Nabagesera er stödd á Íslandi á vegum Amnesty …
Kasha Jacqueline Nabagesera er stödd á Íslandi á vegum Amnesty International en hún er baráttukona fyrir réttindum hinsegin fólks í Úganda. mbl.is/Rósa Braga

Stóran hluta ævi sinnar hefur Kasha Jacqueline Nabagesera þurft að berjast fyrir því að njóta mannréttinda sem okkur Íslendingum þykja sjálfsögð. Hún var ítrekað rekin úr skóla, beitt ofbeldi og henni hótað. Hún hefur þurft að horfa upp á vini sína myrta, nauðgað og beitta ýmiskonar ofbeldi. Það sem hún hefur unnið sér til saka er að vera lesbía í Úganda. Svo getur farið að kynhneigð hennar kosti hana lífið en hún ætlar samt ekki að gefast upp.

Kasha Jacqueline Nabagesera hefur barist fyrir réttindum samkynhneigðra um langt skeið þrátt fyrir að vera einungis 33 ára að aldri. Enda var hún ekki gömul þegar hún fékk að finna fyrir því að hún væri óæskileg þar sem hún er lesbía en hún hefur aldrei farið leynt með kynhneigð sína. Þegar hún var unglingur var hún ítrekað rekin úr skóla fyrir það eitt að vera lesbía. En hún er ekki ein þeirra sem gefst upp og með dyggum stuðningi fjölskyldunnar lauk hún námi í mannréttindalögfræði.

 Nabagesera  er stödd á Íslandi á vegum mannréttindasamtakanna Amnesty International þar sem hún tekur meðal annars þátt í umræðum um mannréttindi, ræðir við þingmenn, háskólanema og starfsfólk utanríkisráðuneytisins um stöðu hinsegin fólks í Úganda.

Samkynhneigð yrði dauðasök

Hún hefur undanfarin ár farið víða um heiminn þar sem upplýsir fólk um ástand mála í Úganda.  þar sem frumvarp til laga hefur verið til umræðu á þingi landsins í fjögur ár varðandi samkynhneigð. Samkvæmt frumvarpinu verður samkynhneigð glæpsamlegt athæfi og þeir sem verða fundnir sekir um glæpinn eiga yfir höfði sér harða dóma, svo sem dauðarefsingu. Samkvæmt frumvarpinu verðu það skylda að tilkynna það til yfirvalda gruni þá einhvern um að vera samkynhneigðan. Ef fólk brýtur gegn þessu á það yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi.

Frumvarpið var fyrst lagt fram í október 2009 en í dag eru sambönd samkynhneigðra ólögleg í Úganda eins og víða í ríkjum sunnan Sahara eyðimerkurinnar. Í Úganda á fólk sem verður uppvíst að því að eiga í sambandi við aðra manneskju af sama kyni yfir höfði sér allt að fjórtán ára fangelsi. Frá þeim tíma hefur frumvarpið verið rætt á þingi reglulega en í nóvember 2012 lýsti forseti þingsins því yfir að frumvarpið yrði að lögum fyrir árslok, einskonar jólagjöf til stuðningsmanna þess. Frumvarpið er ekki enn orðið að lögum en það getur gerst hvenær sem er og óttast  Nabagesera að það geti gerst hvenær sem er.

Hún segir að mikill meirihluti Úgandabúa vilji herða viðurlög við samkynhneigð. Það sé viðtekin skoðun að samkynhneigðir séu hættulegir samfélaginu,  einkum og sér í lagi séu þeir hættulegir börnum sem þeir geti spillt og gert þau samkynhneigð. Þess vegna sé rétt að limlesta og jafnvel taka af lífi þá sem eru hinsegin.

Að sögn Nabagesera hefur það eðlilega mikil áhrif á líðan samkynhneigðra í Úganda sú óvissa sem fylgir því að vita ekki hvort frumvarpið verði samþykkt eður ei. „Bara það að þú vitir ekki hvar þú ert staddur þegar þingheimur samþykkir frumvarpið sem lög. Til að mynda ef þú ert staddur á markaði þegar það gerist þá væri jafn líklegt að hinsegin fólk sem er þekkt opinberlega verði handtekið á staðnum,“  segir hún og bætir við að því miður telji margir að lögin hafi þegar verið samþykkt og taki lögin í sínar hendur enda séu samkynhneigðir réttdræpir.  

Hatrið mest meðal unga fólksins

Að sögn Nabagesera er það ungt fólk sem gengur hvað lengst í hatri sínu á samkynhneigðum í Úganda. Landi þar sem meirihlutinn er kristinn, flestir mótmælendur. Inn í trúna blandast menning álfunnar. Meðal þess sem trúarleiðtogar halda fram er að samkynhneigð sé bein ógn við fjölskyldur og hafa þessar skoðanir þeirra notið stuðnings unga fólksins í Úganda en einnig bandarískra safnaða sem hafa boðað fagnaðarerindið í Úganda þar sem almenningur hefur verið upplýstur um þá hættu sem stafi af hinsegin fólki.

Að sögn Nabagesera hefur þetta síst auðveldað hinsegin fólki lífið í Úganda. Þunglyndi er algengt meðal þeirra og ýmsir hafa orðið fyrir því að vera útskúfaðir af fjölskyldum sínum og þurft að flýja land.  

Fjölskylda Nabagesera hefur alltaf staðið þétt við bakið á henni í baráttunni fyrir mannréttindum þó svo að fjölskyldan hafi líkt og hún þurft að fórna ýmsu.  

Eftir að Nabagesera flutti ræðu á ráðstefnu í Naíróbí í Kenía árið 2007 þar sem hún lýsti þeim veruleika sem hún og aðrir samkynhneigðir þurfa að búa við í heiminum varð hún ítrekað fyrir árásum. Frá þeim tíma hefur hún ekki getað átt fastan samanstað nema í stuttan tíma í senn. Hún segir að ef fjölskylda hennar hefði ekki staðið svo þétt við bakið á henni hefði hún sennilega gefist upp. Hún hafi horft upp á vini sína þvingaða í hjónaband, misþyrmt, úthýst, rekna úr skóla, úr vinnu og neitað um heilbrigðisþjónustu. Þetta gildi líka um þá sem styðja baráttu samkynhneigðra, transfólks og tvíkynhneigða í Úganda. Hatrið nái langt út fyrir raðir þeirra sem eru hinsegin. Það sé nóg að vera barn einhvers sem hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við baráttu þeirra eða hafi unnið fyrir samtök sem Nabagesera stofnaði ásamt fleirum fyrir nokkrum árum, Freedom and Roam Uganda (FARUG). Slíkur stuðningur þýði að börn viðkomandi verða fyrir aðkasti í skóla og hvar sem er mæti þeim hatur.

Mun aldrei gefast upp þó svo það geti kostað hana lífið

Þrátt fyrir að hafa oft verið í lífshættu, verið hótað og orðið fyrir árásum ætlar Nabagesera ekki að gefast upp. Hún sé ekki ein á báti, það hafi alltaf einhverjir þurft að berjast fyrir því að njóta stjórnarskrárbundinna réttinda  í gegnum tíðina. „Ég hef séð vini mína myrta, pyntaða, þeim nauðgað og þá neydda í útlegð í gegnum árin. En þó svo ég lifi það ekki af að sjá mannréttindi hinsegin fólks tryggð í Úganda þá hef ég að minnsta kosti lagt mitt af mörkum til að tryggja mannréttindi þessa hóps,“ segir Nabagesera.

Athygli alþjóðasamfélagins hefur haft sitt að segja í baráttunni, meðal annars þegar dagblað í Úganda birti árið 2010 myndir og nöfn landa sinna sem blaðið staðhæfði að væru hinsegin, undir fyrirsögninni „Hengjum þau“! Nafn Nabagesera og samstarfsfélaga hennar David Kato voru meðal þeirra sem birt var í blaðinu ásamt mynd en þau kærðu síðar blaðið fyrir að hvetja til ofbeldis í garð hinsegin fólks og brutu þannig  blað í mannréttindabaráttunni í Úganda.

Nabagesera skýrði sjálf þetta skref þannig að þau hefðu gert tilraun til að „vernda það einkalíf og öryggi sem allir ættu rétt á“. David Kato var síðar myrtur í kjölfar lagadeilunnar. Hún segir að þetta sé ekki í eina skiptið sem dagblað í Úganda birtir myndir og upplýsingar um hinsegin fólk. Meðal annars var ráðist á samstarfskonu Nabagesera nýverið og hún beitt ofbeldi. Annar félagi hennar varð fyrir því fyrir stuttu að kveikt var í húsi. Það varð honum til lífs að hann hafði skroppið út þegar brennuvargarnir kveiktu í.

Engin lausn að svipta Úganda þróunaraðstoð

Ríkisstjórnir ýmissa ríkja og alþjóðleg mannréttindasamtök hafa lagt það til að Úganda verði svipt þróunarstyrkjum út af brotum á alþjóðlegum sáttmálum um mannréttindi. En Nabagesera telur að það sé ekki rétt á þessu stigi að ganga svo langt því það gefi þeim sem berjast gegn samkynhneigðum byr undir báða vængi, að það væri hægt að kenna samkynhneigðum um að landið fengju ekki stuðning frá alþjóðasamfélaginu.

Þess hefur verið krafist að stjórnvöld  í Úganda taki af skarið og vísi frumvarpinu frá en því neita stjórnvöld og segja að það brjóti gegn menningu þeirra og frumvarpið sé ekki stjórnarfrumvarp. Aftur á móti hafi stjórnvöld í Úganda samþykkt að rannsókn fari fram á ofbeldi gagnvart hinsegin fólki og að reynt verði að vernda þá sem eru samkynhneigðir fyrir ofbeldi.

Staðan ekkert betri í Kamerún og Nígeríu

„Ég velti því nú samt fyrir mér hvernig þeir ætla að vernda okkur á sama tíma og þeir undirbúa lagasetningu sem heimilar þeim að taka okkur af lífi,“ segir Nabagesera.

„Ég viðurkenni líka að ég spyr sjálfa mig oft þeirrar spurningar hvort mark sé takandi á Sameinuðu þjóðunum og þeim ríkjum innan þeirra vébanda sem segjast styðja og vernda mannréttindi og leyfa síðan ríkjum að komast upp með að mannréttindi séu brotin úti um allan heim því Úganda er ekki eina ríkið í heiminum sem brýtur grimmilega á mannréttindum hinsegin fólks. Sjáðu nágrannaríkin, Nígeríu og Kamerún. Ástandið er ekkert betra þar.“

Nabagesera segir að á ferðum sínum um heiminn reyni hún að afla samtökunum FARUG fjárhagslegs stuðnings því baráttan kostar sitt og meðal annars fá samkynhneigðir oft ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu í Úganda. Enda telja margir íbúar Úganda að snerting við samkynhneigt fólk geti smitað fólk af samkynhneigð og eins beri þeir hættulega sjúkdóma. Það væri því mun betra ef þróunarhjálpinni sem rennur til Úganda yrði úthlutað til hjálparsamtaka og mannréttindasamtaka í stað þess að stjórnvöld fái aðstoðina í hendur. Því ekki sé líklegt að samtök eins og FARUG fái stuðning frá ríkinu til þess að höfða mál gegn ríkinu vegna brota á félögum innan samtakanna.

Eins og áður sagði er Nabagesera einn af stofnfélagum FARUG og hefur verið þar við  stjórnvölinn frá upphafi. Hún hefur hins vegar ákveðið að stíga til hliðar í lok júní og fela yngra fólki að stýra baráttunni heima fyrir.

Í október árið 2011 vann hún til Martin Ennals-verðlaunanna fyrir starf sitt í þágu mannréttinda, en hún er fyrst til að hljóta verðlaunin fyrir baráttu sína fyrir réttindum hinsegin fólks.

Verðlaunin eru viðurkenning á þrautseigju og staðfestu Nabagesera við að berjast fyrir rétti hinsegin fólks og binda enda á andrúmsloft ótta sem það upplifir dag hvern í Úganda. Baráttuhugur Nabagesera er baráttufólki fyrir mannréttindum hinsegin fólks um heim allan mikill innblástur, segir á vef Amnesty International.

Annað kvöld verður heimildarmyndin Kallið mig Kuchu sem fjallar um baráttu samkynhneigðra í Úganda sýnd í Bíó Paradís. Að sýningu myndarinnar lokinni svarar Nabagesera fyrirspurnum úr sal.

Miðvikudaginn 24. apríl flytur hún fyrirlestur um mannréttindabaráttu hinsegin fólks í hádeginu í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á viðhorfi fólks til samkynhneigðra á …
Gríðarlegar breytingar hafa orðið á viðhorfi fólks til samkynhneigðra á undanförnum áratugum en víða er enn langt í land. AFP
Leikstjórinn David Cecil var handtekinn í Úganda í fyrra fyrir …
Leikstjórinn David Cecil var handtekinn í Úganda í fyrra fyrir leikrit sem hann sýndi um samkynhneigðan mann. Honum var síðar vísað úr landi AFP
Jón Gnarr, borgarstjóri er ötull stuðningsmaður mannréttinda og í gleðigöngunni …
Jón Gnarr, borgarstjóri er ötull stuðningsmaður mannréttinda og í gleðigöngunni í fyrra sýndi hann pönksveitinni Pussy Riot stuðning. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is