Myndi valda óróa ef þeir gengu lausir

Vopn sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins
Vopn sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir tveimur ungum mönnum, 18 og 19 ára, sem réðust inn á heimili karlmanns á sjötugsaldri, ógnuðu honum og stálu frá honum átta skotvopnum. Mennirnir hafa játað brot sín.

Er þeim gert að sæta gæsluvarðhaldi til 8. júlí næstkomandi en það er talið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Mennirnir hafa játað að hafa þann 1. júní sl. ruðst inn á heimili mannsins í Grafarvogi með andlit sitt hulið, annar vopnaður hnífi, bundið hendur og fætur mannsin og farið ránshendi um íbúðina.

Þykir brot þeirra þess eðlis að það telst vera svívirðilegt í augum almennings og þar með hætta á að það ylli óróa í samfélaginu ef þeir yrðu látnir lausir, að því er segir í dómi Hæstaréttar.

Er annar mannanna talinn vera með tengsl við vélhjólasamtökin Outlaws og húsnæðið þar sem vopnin fundust í Hafnarfirði tengist einnig samtökunum. Leitað var á tveimur öðrum stöðum í Hafnarfirði og fundust þá nokkur vopn til viðbótar. Það húsnæði tengist einnig Outlaws.

Rannsókn málsins er á lokastigi og telur lögregla að málið verði væntanlega sent ríkissaksóknara innan þess tíma sem þeir eru í gæsluvarðhaldi.

Tveir aðrir karlmenn, 18  og 23 ára, sátu um tíma einnig  í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar, en þeim var sleppt úr haldi lögreglu í síðustu viku.

Vopn sem lögreglan lagði hald á í tengslum við rannsókn …
Vopn sem lögreglan lagði hald á í tengslum við rannsókn hennar á ráni og frelsissviptingu í Grafarvogi mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is