Þjóðaratkvæði ekki fyrirhugað

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, á fundinum í morgun.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, á fundinum í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

„Það liggur alveg ljóst fyrir að ferlið verður þannig að verið er að vinna ákveðna skýrslu um málið og sú vinna fer í gang. Bæði varðandi stöðu viðræðnanna og stöðu Evrópusambandsins. En stjórnarsáttmálinn, og þær samþykktir sem ríkisstjórnin hefur til grundvallar, segir ekkert um að það muni fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið heldur aðeins að það muni fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla ef viðræður verði hafnar á nýjan leik.“

Þetta sagði Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins í morgun. Hann svaraði þar fyrirspurn frá Evrópuþingmanninum Søren Søndergaard sem spurði hvort það væri rétt skilið hjá sér að stefna ríkisstjórnarinnar væri sú að í kjölfar skýrslu um stöðu umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið og stöðuna innan sambandsins sjálfs yrði tekin ákvörðun af ríkisstjórninni og meirihluta hennar á þingi um framhaldið. Þjóðaratkvæði kæmi aðeins til ef sú ákvörðun yrði á þá leið að hefja á ný viðræður.

Ekki forsendur til þess að halda málinu áfram

Ásmundur minnti á að fyrri ríkisstjórn hefði hægt á viðræðuferlinu fyrir þingkosningar og ný stjórn hefði einfaldlega ákveðið að gera alvöru hlé á viðræðunum. Meðal annars væri í undirbúningi að leysa upp samningshópa en síðustu fundir þeirra hafi farið fram í síðustu viku og verið lokafundir. Ennfremur myndi Ísland ekki taka við nýjum styrkjum frá Evrópusambandinu sem hugsaðir væru til aðlögunar að því. Þá rifjaði Ásmundur upp þau ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, að viðræðum við sambandið yrði ekki haldið áfram á hans vakt í utanríkisráðuneytinu og að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefði að sama skapi sagt að hann teldi ekki að þjóðaratkvæði um málið færi fram á kjörtímabilinu.

„Ég held að það sé mikilvægt að tala mjög skýrt hvað þetta snertir og ég sé í rauninni ekki fyrir mér að ríkisstjórn sem er svo andsnúin Evrópusambandsaðild geti í raun haldið áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið á meðan allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru andsnúnir Evrópusambandsaðild. Á meðan flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina, báðir tveir, eru andsnúnir Evrópusambandsaðild þá sér maður ekki fyrir sér að þetta ferli geti haldið áfram,“ sagði hann. Ekki væri rétt að gera sér neinar falsvonir um það hvað framundan væri varðandi Evrópusambandsviðræður þegar til staðar væri ríkisstjórn sem væri andsnúin aðild að sambandinu.

mbl.is