Segja tillöguna geta skaðað menntakerfið

Samband evrópskra stúdenta (ESU) telur að tillaga Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, um breytingar á starfsemi Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) geti skaðað menntakerfi landsins og setji verulegar skorður við aðgangi almennings að háskólamenntun. Þessar breytingar geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér til lengri tíma litið. Þetta kemur fram í frétt frá sambandinu.

ESU sendi formlegt bréf til menntamálaráðherra, menntamálanefndar Alþingis og stjórnar LÍN í dag þar sem sambandið skýrði frá áhyggjum sínum af þróun mála á Íslandi. Rok Primozic, formaður ESU, undirritaði bréfið fyrir hönd sambandsins.

Menntun er á ábyrgð hins opinbera

„Tillaga sem miðar að því að herða kröfur um þann fjölda ECTS-eininga sem nemendur þurfa til að fá fjárhagsaðstoð mun gefa þeim mun minni sveigjanleika. Í tillögunni er ekki tekið sérstakt tillit til aðstæðna margra nemenda, eins og þeirra sem eru með fjölskyldur, þeirra sem vilja stunda hlutanám, þeirra sem eru fatlaðir eða þeirra sem eiga við veikindi að stríða. Í Evrópu er háskólamenntun á ábyrgð hins opinbera. Íslensk stjórnvöld munu aðeins styrkja forréttindi þeirra sem nú þegar hafa góða félagslega stöðu í samfélaginu og takmarka aðgang annarra hópa að háskólamenntun. Íslandi ber skylda til að tryggja að háskólasamfélag landsins endurspegli hið almenna þjóðfélag,“ segir í bréfinu.

ESU varð fyrir miklum vonbrigðum með að ný ríkisstjórn Íslands hafi ekki sýnt áhuga á kostum þess að efla styrkjakerfi landsins fyrir námsmenn, sem Stúdentaráð Háskóla Íslands kallaði meðal annars eftir í aðdraganda þingkosninganna í apríl.

Menntun er ekki verslunarvara

Að mati ESU eru námslán ekki sjálfbær fjármögnunarkostur og aðgangshindrun að háskólamenntun fyrir marga þjóðfélagshópa. Í Bandaríkjunum eru afleiðingar stighækkandi námsskulda  skýrar. Þar skulduðu námsmenn í heild meira en 914 milljarða Bandaríkjadala vegna námslána þann 30. júní 2012. Bandaríkjamenn skulda nú meira vegna námslána en vegna kreditkortanotkunar. Vanskil námsmanna hafa líka aukist samhliða þessari þróun þar sem fleiri eiga í erfiðleikum með að standa undir afborgunum.

„Það er leitt að Ísland skuli fara þá leið að gera menntun að verslunarvöru sem skuli aðeins vera aðgengileg fáum útvöldum hópum. Nú þegar efnahagur Íslands hefur styrkst væri skynsamlegra að styðja betur við þá þjóðfélagshópa sem eiga síður kost á því að verða sér úti um háskólamenntun,“ segir Primozic.

Mikilvægi háskólamenntunar viðurkennt

ESU telur að tillagan um að breyta íslenska fjármögnunarkerfinu fyrir námsmenn muni grafa undan því mikilvæga hlutverki sem háskólamenntun gegnir í hverju samfélagi. Þær skýrslur sem OECD og Eurydice gáfu út á þessu ári undirstrika þau efnahags- og félagslegu gæði sem háskólamenntun leiðir af sér.

„Háskólamenntun gegnir lykilhlutverki í félagslegri þróun og lýðræðislegri virkni samfélagsins. Hún bætir líka velferð almennings og efnahagslega framþróun. Áframhaldandi efnahagsuppbygging Íslands byggist á því að rækta styrkjakerfið fyrir námsmenn. Það hlýtur að gefa augaleið,“ segir Primozic.

mbl.is