Íslendingur játaði manndráp í Noregi

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

39 ára gamall Íslendingur hefur játað að hafa orðið manni að bana í Valle í Noregi í maí. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Fórnarlambið, Helge Dahle, var þekktur útvarpsmaður í Noregi. Morðvopnið var pylsuhnífur, að því er fram kemur í norska blaðinu VG í dag.

Maðurinn hefur verið búsettur í Noregi í 13 ár.

Í VG segir að til blóðugra slagsmála hafi komið þegar líða tók á nóttina í veislu sem haldin var í tjaldi í Valle. Dahle er sagður hafa reynt að skakka leikinn með því að sparka í höfuð Íslendingsins sem brást við með því að þrífa upp hníf og stinga hann.

Saksóknarinn Terje Kaddeberg Skaar segir í samtali við VG í dag að morðvopnið, sérsmíðaður pylsuhnífur, sé í eigu milljarðamæringsins Knut Axel Ugland. Sá hefur stöðu vitnis í málinu.

Hann mun hafa hlaupið út úr tjaldinu þegar slagsmálin hófust, en þegar hann sneri aftur stuttu síðar sá hann Dahle liggja blóðugan í grasinu með fjögur stungusár á brjóstinu. Hann var með meðvitund þegar sjúkraþyrla kom og sótti hann innan nokkurra mínútna, en var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.

Saksóknarinn Skaar segir að rannsókn málsins sé því sem næst lokið. Tilefni morðsins virðist ekki hafa verið annað en skyndileg bræði í slagsmálum.

Verjandi Íslendingsins, Svein Kjetil Stallemo, segir að skjólstæðingur hans hafi brugðist við í sjálfsvörn þegar Dahle sparkaði í hann. Haft er eftir honum í VG að spark í höfuðið hefði auðveldlega getað banað honum og því hefði hann gripið hnífinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert