Runnið undan rifjum lögreglunnar

Verjandi Barkar Birgissonar hélt því fram fyrir Hæstarétti í dag að mál á hendur skjólstæðingi sínum væri runnið undan rifjum lögreglunnar. Ekki sé tilviljun að upp komi tvö mál á sama tíma og bendi til miðlægrar stýringar. Héraðsdómurinn hafi verið sleggjudómur og allt hengt á þá Annþór og Börk.

Þetta kom fram þegar þeir Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson komu fyrir Hæstarétt í dag. Þegar hefur verið fjallað um 1. lið ákærunnar á hendur þeim og næst er það 2. ákæruliður. Áður var fjallað um þennan lið á mbl.is þegar aðalmeðferð málsins fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Þá umfjöllun má lesa hér.

Samkvæmt ákæruskjali eru Annþór og Börkur ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að [Ó] í íbúð í Grafarvogi. Börkur sló hann með barefli í hnakkann þannig [Ó] fékk skurð á höfuðið. Einnig fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung með því að hafa veist að [V], neytt hann til að leggjast á magann, staðið á höndum hans og haldið honum þar á meðan kastað var yfir hann þvagi.

Auk þess sló Börkur [V] með bareflinu í hnakkann og reif í vinstra eyra hans.

Einnig eru þeir ákærðir fyrir að hafa þvingað [Á] til að kasta þvagi yfir vin sinn [V] þar sem hann lá á gólfinu.

Þeir eru þá ákærðir fyrir frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar. Kröfðust þeir að [Ó] greiddi þeim hálfa milljón daginn eftir og að [V] greiddi þeim 200 þúsund krónur á mánuði í ótiltekinn tíma.

Héraðsdómur Reykjaness sakfelldi þá samkvæmt ákæruskjali fyrir utan það að dómurinn fjallaði í niðurstöðu sinni ekki um tilraun til að kúga út úr [V] fé. Kemur það atriði því ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti.

Eins og áður hefur hefur komið fram var Annþór dæmdur í sjö ára fangelsi og Börkur í sex ára fangelsi fyrir aðild sína að sérstaklega hættulegum líkamsárásum, ólögmætri nauðung, frelsissviptingu og tilraunum til fjárkúgunar.

Herðatré varð að kylfu og svo priki

Það verður að viðurkennast að mest púður fór í 1. ákærulið og vegna tímatakmarkana í Hæstarétti var minna fjallað um ákæruliði 2 og 4. Það sem þó kom fram um 2. ákærulið var að lögregla fór í vettvangsferð í Jötnaborgir 2, þar sem atvik eiga að hafa átt sér stað, 16. mars 2012. Það er nokkrum mánuðum eftir ætluð brot.

Þegar lögregla fór í vettvangsrannsókn bjó enginn í íbúðinni. Engu að síður fundust með sérstakri tækni blóðleifar á stofugólfi íbúðarinnar.

Héraðsdómur byggði að mestu leyti á skýrslum fórnarlamba hjá lögreglu. „Þeir sem voru inni í íbúðinni hafa verið mjög tregir til að tjá sig um málið [fyrir dómi]. Þeir virðast vera mjög hræddir um að eitthvað komi fyrir þá ef þeir tjá sig um málið,“ sagði saksóknari og einnig að vísbendingar væru um að vitnum hefði verið hótað.

Hann fór yfir skýrslur mannanna hjá lögreglu sem voru á þá leið að Annþór og Börkur hefðu ruðst inn í íbúðina ásamt fleirum og ráðist á þá.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Annþórs, benti aðeins á örfá atriði hvað þennan ákærulið varðaði, enda skiptu þeir með sér verkum verjendurnir.

Sveinn gerði athugasemdir við að vitni væri tekið trúanlegt sem hefði gerst sekt um að bera áður ljúgvitni og hefði unnið sér mein til að gera þann framburð trúanlegri. Þá benti hann á misræmi í framburði vitna hjá lögreglu, það sem í fyrstu hafi verið herðatré varð að kylfu og síðar að priki. Þá hafi eitt fórnarlambið sagst hafa leitað á slysadeild en þar finnist engin gögn um komu þess.

Hann sagði að ekki væri hægt að sjá að komin væri fram lögfull sönnun um að Annþór og Börkur hefðu valdið líkamstjóni, svipt nokkurn mann frelsi eða reynt að kúga út úr einhverjum fé.

Blóðið hugsanlega úr dýri

Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar, benti á og áréttaði að málið væri sprottið upp úr upplognum sökum á Börk. Hann gagnrýndi harðlega að það væri engin bein frásögn í skýrslutökum lögreglu heldur hefðu rannsakendur stýrt þeim í einu og öllu. Þá hafi vettvangsrannsókn nánast engin verið og brotavettvangur ekki skoðaður. Blóðsýni hafi verið tekið mörgum mánuðum eftir meint brot og þó svo það hafi fundist merki um blóð á gólfinu hafi ekki verið kannað úr hverjum það var. Ekki einu sinni hvort það var úr dýri eða manni.

Þá sagði hann að samkvæmt frásögn mannanna hefði átt að vera blóðslóð frá stofu og inn á baðherbergi. Svo var ekki og ekkert sem benti til þess.

Í læknisskýrslu þess sem leitaði læknishjálpar var skráð að hann hefði dottið í stiga. „Lögregla átti einnig að fara í stigaganginn og kanna með blóð þar, læknaskýrsla staðfestir að hann datt í tröppunum. Af hverju var það ekki kannað?“

Þá rakti Sveinn símagögn í málinu og sagði þau sýna að Héraðsdómur Reykjaness hefði byggt niðurstöðu sína á röngum gögnum. Þá séu sönnunargögn villandi og takmörkuð, sérstaklega símagögnin og annmarkar á rannsókn málsins hjá lögreglu. Hann sagði héraðsdóm ekki hafa rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig unnt sé að leggja frásagnir vitna til grundvallar með stoð í gögnum málsins. Því beri að ómerkja dóminn og vísa heim í hérað eða sýkna.

Saksóknari tók undir það í síðari ræðu og viðurkenndi að héraðsdómur hefði mislesið gögnin. Hins vegar breyti það ekki máli þar sem símasamskiptin styðji engu að síður málatilbúnað ákæruvaldsins um aðdraganda atlögunnar.

Hann tók svo einnig fram að eitt vitnið, sem verjendur sögðu með ólíkindum að væri tekið trúanlegt, væri reyndar minnimáttar og eðlilegt væri að vekja athygli dómsins á því. Hann áréttaði þó að vitnið hefði gert grein fyrir persónulegum aðstæðum sínum fyrir héraðsdómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert