Erfið akstursskilyrði á Reykjanesbraut

Reykjanesbraut.
Reykjanesbraut. mbl.is/Rax

Vegagerðin varar við því að búast megi við snjókomu á fjallvegum ofan 200 m frá því um klukkan 10:00 í dag. Það á við um Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en annars staðar á landinu frá því um og eftir hádegi. Skyggni verður lítið um tíma, en hlánar á endanum.

Vindhviður verða allt að 40-50 m/s a Kjalarnesi í dag, undir Hafnarfjalli, Eyjafjöllum og á utanverðu Snæfellsnesi. Þá er vakin sérstök athygli á erfiðum akstursskilyrðum sem kunna að verða á Reykjanesbraut með veðurhæð yfir 20 m/s, þvert á akstursstefnu og í ausandi rigningu  nú upp úr hádeginu og fram undir klukkan 17:00.

Vegir eru annars að mestu greiðfærir um sunnanvert landið, allt frá Faxaflóa austur fyrir Djúpavog, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Þó eru hálkublettir á fáeinum vegum, s.s. á Mosfellsheiði og á kafla vestan Kirkjubæjarklausturs.

Hálka eða hálkublettir eru víða á Vesturlandi en snjóþekja á Bröttubrekku. Þá er hálka eða hálkublettir allvíða á Vestfjörðum, einkum á heiðum og hálsum. Snjóþekja er frá Gufudal að Klettshálsi.

Hálkublettir eru mjög víða á Norðurlandi vestra en hálka í Langadal og á Vatnsskarði. Norðaustanlands er hálka á flestum leiðum en þæfingsfærð á Dettifossvegi. Á Austurlandi er víðast hvar hálka eða snjóþekja en að mestu autt með ströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert