Veðurteppt á Keflavíkurflugvelli

Keflavíkurflugvöllur í dag
Keflavíkurflugvöllur í dag Ljósmynd/Vigdís Hauksdóttir

Vigdís Hauksdóttir og Jón Bjarnason eru meðal þeirra sem eru veðurteppt ásamt nokkrum fjölda farþega á Keflavíkurflugvelli. Á facebooksíðu sinni segir hún síðasta klukkutímann af fluginu hafa verið strembinn, og þakkar fyrir ágæti íslenskra flugmanna.

Vigdís og Jón eru nýkomin frá Noregi, en sitja nú föst í flugvél á Keflavíkurflugvelli, þar sem ekki er hægt að hleypa fólki frá borði vegna veðurs.

Í tilkynningu frá Isavia segir að allar áætlunarflugvélar sem von var á síðdegis í dag til Keflavíkurflugvallar séu lentar nema FI-205 frá Kaupmannhöfn sem sneri við og hélt til Glasgow. Vegna vinds hefur ekki enn verið hægt að setja afgreiðslutæki upp að flugvélunum sem lagt var á Háaleitishlaði hjá gömlu flugstöðinni og hafa farþegar beðið um borð þar til veðurmörk gera afgreiðslu mögulega.

Veður er farið að lægja  og hafa farþegar komist frá borði tveggja flugvéla WOW Air og voru fluttir með rútum í flugstöðina. Undirbúningur er hafinn að akstri annarra flugvéla að flugstöðinni til afgreiðslu og veða þær tengdar við landgöngubrýr strax og öruggt þykir.

Brottförum til Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada hefur verið frestað til a.m.k. 17:30.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert