Ljúka hringferðinni í Hörpu

mbl.is

100 daga hringferð Morgunblaðsins lýkur á fullveldisdaginn, sunnudaginn 1. desember nk., með því að Haraldur Johannessen ritstjóri blaðsins, ræðir við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í beinni útsendingu á mbl.is fyrir framan áhorfendur í sal í Hörpu.

Til að fagna 100 ára útgáfu Morgunblaðsins voru blaðamenn og ljósmyndarar Morgunblaðsins og mbl.is sendir í 100 daga ferð um sveitir og bæi landsins. Markmiðið var að taka púlsinn á lífinu í landinu og gera ítarlega könnun á því sem er Íslendingum efst í huga.

Umræður Haraldar, Sigmundar og Bjarna munu byggja á því sem komið hefur fram í hringborðsumræðum hringferðarinnar og niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal 300 forystumanna úr atvinnulífinu og sveitastjórnum um land allt sem birtist í Morgunblaðinu á morgun. 

Landsmönnum gefst einnig tækifæri til að hafa áhrif á umræðuna með því að senda inn spurningar, bæði áður en útsendingin hefst og einnig á meðal hún stendur yfir. Ljóst er að margar spurningar brenna á landsmönnum og er hverjum og einum frjálst að senda inn spurningu vegna þáttarins. Eflaust munu tillögur sérfræðingahóps um aðgerðir í þágu skuldugra heimila, sem kynntar verða í Hörpu á morgun, vekja upp einhverjar spurningar hjá landsmönnum.

Hægt er að senda spurningar á netfangið hringlok@mbl.is, á facebook-síðu mbl.is og í gegnum twitter með því að nota #hringlok

Hvað má bæta og hverju ber að fagna?

Á leið Morgunblaðsins um landið hefur verið efnt til hringborðsumræðna um landsins gagn og nauðsynjar og könnun á stöðu og horfum um allt land. Ætlunin var að draga fram stöðu og horfur, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli. Í tengslum við hringborðsumræðuna efndi Morgunblaðið til óformlegrar skoðanakönnunar um stöðu byggða og atvinnulífs meðal um 300 forystumanna úr atvinnulífinu og sveitastjórnum um allt land.

Uppgangur virðist vera í atvinnulífi á Vestfjörðum og eru vonir bundnar við að það takist að stöðva hina miklu fólksfækkun á Vestfjörðum þó margt megi enn gera betur. Norðlendingar eru ósáttir við hvernig staðið hefur verið að fækkun ríkisstarfsmanna í landshlutanum en fagna Héðinsfjarðargögnum, menningarhúsinu Hofi á Akureyri, Menntaskólanum á Tröllaskaga og miklum uppgangi í sjávarútvegi.

Há fargjöld í innanlandsflugi var eitt þeirra málefna sem brann á íbúum Austurlands, en fyrirtæki hafa þó lagt sitt af mörkum til að niðurgreiða flugmiða starfsfólks. Suðurnesjamenn eru sannfærðir um að þeim sé að takast að vinna sig út úr erfiðleikum undanfarinna ára en mikið atvinnuleysi og fjárhagserfiðleikar hafa verið einkennandi í fréttaflutningi af Suðurnesjum allt frá bankahruninu haustið 2008. Menntunarstigið á svæðinu var þó áhyggjuefni við hringborðið en það hefur lengi verið lægra en í öðrum landshlutum.

Á höfuðborgarsvæðinu finna menn fyrir bjartsýni í kjölfar þess að verulega hefur dregið úr atvinnuleysi og fyrirtæki eru farin að spyrjast fyrir um lóðir undir atvinnuhúsnæði. Þó er enn mikil óvissa, en miklu skiptir hver niðurstaða komandi kjarasamninga verður.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Ómar Óskarsson
Haraldur Johannessen ritstjóri Morgunblaðins.
Haraldur Johannessen ritstjóri Morgunblaðins. Heiðar Kristjánsson
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert