Kunna að leita til dómstóla

Félagið Vinir Þjórsárvera og þrjú önnur náttúrverndarsamtök hafa sent bréf til Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, þar sem mótmælt er áformum hans um að skapa svigrúm fyrir virkjunarmannvirki í farvegi Þjórsár við Þjórsárver með tillögu um ný suðurmörk friðlandsins.

„Eins og kunnugt er ákvað Alþingi að Þjórsárver og svæðið sem nær til Norðlingaölduveitu skyldi vernda. Félögin telja að verði tillaga ráðherra samþykkt, sé ekki bara verið að brjóta lög heldur einnig eina grunnforsendu rammaáætlunar, að skapa frið og sátt um þau svæði sem Alþingi hefur ákveðið að setja í verndarflokk,“ segir í tilkynningu frá samtökunum. Ráðherra er bent á að honum beri að fylgja lögunum sem skyldi hann til þess að hefja undirbúning að friðlýsingu landssvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa vegna orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki.

„Félögin hafa látið gera lögfræðilega úttekt á málinu sem tekur af alla vafa um að sú tillaga sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur nú sent viðkomandi sveitarstjórnum, sem gerir ráð fyrir virkjunarmannvirkjum í farvegi Efri-Þjórsár, er ekki í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun eða lögskýringargögn og gengur beinlínis gegn rökstuðningi í þingsályktun um áætlun um vernd- og orkunýtingu landsvæða,“ segir ennfremur.

Þá segir að félögin áskilji sér allan rétt til að leita til dómstóla vegna lögmæti tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra, málsmeðferðar hans „og annarra sem komið hafa að ferlinu og vegna annarra atriða sem snúa að stækkun á friðlandi Þjórsárvera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert