Krefst afsagnar Braga

„Enn fremur mun ég fara fram á að Bragi Mikaelsson segi af sér sem formaður kjörnefndar, enda er það hlutverk formanns að tryggja að prófkjörið fari fram með góðum og heiðarlegum hætti,“ segir Gunnlaugur Snær Ólafsson, einn frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu í Kópavogi.

Prófkjörið fer fram 8. febrúar næstkomandi og býður Gunnlaugur Snær sig fram í 3. sætið. Mikill titringur er nú innan meirihlutans í Kópavogi eftir að Gunnar Birgisson studdi minnihlutann í húsnæðismálum, þvert á stefnu Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra.

Tilefni ummæla Gunnlaugs Snæs er viðtal mbl.is við Braga fyrr í dag, nánar tiltekið þessi ummæli Braga: „Af frambjóðendum er það náttúrlega fyrst og fremst Jóhann Ísberg og Þóra Margrét Þórarinsdóttir sem hafa stutt Gunnar mjög ýtarlega. Það eru nokkrir fleiri einstaklingar, já og Gunnlaugur Snær Ólafsson.“

Ekki hvetjandi fyrir ungt stjórnmálafólk

Gunnlaugur Snær vísar þessu alfarið á bug. 

„Mitt nafn var dregið fram í viðtali mbl.is við Braga Mikaelsson. Ég vil að það sé á hreinu að mér misbýður að mitt nafn sé dregið inn í deilumál eldri kynslóðar. Ég býð mig fram sem ungur og óháður kandídat. Ég hef enga fjárhagslega bakhjarla eða neitt slíkt.

Mér misbýður að vera dreginn inn í umræðuna með þessum hætti. Mér finnst þetta ekki vera hvetjandi fyrir ungt fólk og nýtt fólk til þess að taka þátt í prófkjöri, fólk sem hefur áhuga á stjórnmálum og vill taka þátt í stjórnmálastarfi, að fá slíkar móttökur. Enn fremur mun ég fara fram á að Bragi Mikaelsson segi af sér sem formaður kjörnefndar, enda er það hlutverk formanns að tryggja að prófkjörið fari fram með góðum og heiðarlegum hætti.

Til þess að það verði gert eru það leikreglur lýðræðisins að menn í hans embætti haldi hlutleysi sínu. Ég er ekki viss um að formaðurinn geti haldið hlutleysi sínu í ljósi þess að hann hefur komið með yfirlýsingar gegn einstökum frambjóðendum.“

Ekki stuðningsmaður Gunnars

- Ertu á bandi Gunnars?

„Nei, það hef ég aldrei verið. Ég hef aldrei verið á bandi neins. Hver sá sem þekkir mig veit að ég hef oft gagnrýnt Gunnar. Ég hef líka veitt honum hrós. Ég hef gert það sama við Ármann og alla aðra sem starfa í pólitík.

Það er skemmtileg tilgáta að ég eigi að vera þátttakandi í aðgerðum gegn Ármanni þegar ég sækist eftir 3. sæti. Ég er ekki einu sinni að bjóða mig fram í 1. sætið. Ég kem algjörlega ofan af fjöllum.

Ég hyggst hafa samband við framkvæmdastjóra og forystu Sjálfstæðisflokksins og krefjast afsagnar formanns kjörnefndar. Jónmundur Guðmarsson og Bjarni Benediktsson verða upplýstir um stöðu mála. Ég kæri mig ekki um að mitt nafn verði dregið inn í þetta,“ segir Gunnlaugur Snær og ítrekar að hann sé óháður og hafi enga fjárhagslega bakhjarla. Hann taki þátt í stjórnmálum af hugsjón og til að berjast fyrir bættum hag Kópavogsbúa.

Gunnlaugur Snær Ólafsson.
Gunnlaugur Snær Ólafsson. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert