„Dapurlegur dagur í sögu þjóðar“

Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er dapurlegur dagur í sögu íslensku þjóðarinnar, en ekki síður Sjálfstæðisflokksins,“ segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, um þá ákvörðun þingflokka stjórnarinnar að slíta viðræðum við Evrópusambandið um aðild að sambandinu.

„Ég tel að það stappi nálægt pólitísku hermdarverki að svipta íslensku þjóðina þeim valkosti að fá sjálf að velja hvort hún telur sjálf hag sínum betur borgið í efnahagslegum og pólitískum styrk Evrópusambandsins, með evruna sem framtíðargjaldmiðil - eða standa utan þess.

Með þessari ákvörðun, sem ég tel að muni þurfa ofbeldi til að knýja í gegnum Alþingi, þá er Sjálfstæðisflokkurinn að klippa á þann möguleika um ákaflega langa framtíð, að Ísland geti orðið aðili að sambandinu, jafnvel þótt hér á landi komi upp aðstæður sem beinlínis kalli á það. Slíkar aðstæður gætu komið upp fyrr en seinna, m.a. annars vegna gjaldmiðilsmálanna, því að í samningum við kröfuhafa föllnu bankanna er ríkisstjórnin ráðalaus.

Fyrir Bjarna Benediktsson eru þetta persónuleg svik við loforð sem hann gaf stórum hluta flokksmanna. Hann lofaði flokksmönnum og þjóðinni þjóðaratkvæði  um framhald viðræðna. Það gerði hann fyrir kosningar, síðast tveimur dögum fyrir kosningar og endurtók það síðan á fundi í Hörpu í haust. Það kunna að verða eftirmæli þess góða drengs í flokknum, að hann  gaf sínu eigin fólki stórpólitísk loforð sem hann stóð ekki við. Hann virðist vera algjörlega í bandi sérkennilegs bandalags formanns Framsóknarflokksins og svartstakka í Sjálfstæðisflokksins, sem m.a. stjórna Morgunblaðinu. Bjarni fær ekki einu sinni frelsi til að standa við eigin loforð, gagnvart flokknum.

Virðingarleysi Sjálfstæðisflokksins gagnvart þinginu er jafnframt svo algjört og fordæmalaust, því þingflokkur hans tekur ákvörðun um að styðja slit viðræðna áður en umræða um merka skýrslu Hagfræðistofnunar er hálfnuð, en því var lofað að ræða ætti hana til hlítar. Bjarni sagði fyrir tveimur dögum að það yrði unnið með skýrsluna áður en nokkur ákvörðun yrði tekin. Það sýnir að skýrslan var yfirvarp og tilgangur hennar sá einn að steypa stöpul til að taka ákvörðun sem nú virðist hafa verið tekin fyrirfram.

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn tel ég að þetta marki söguleg kaflaskil. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf frá upphafi vega verið boðberi og flytjandi jákvæðra breytinga á tengslum Íslands við umheiminn. Hann hefur lagt ríka áherslu á frjáls viðskipti og jafnan haft það í öndvegi að skapa sem jákvæðast umhverfi fyrir efnahags- og atvinnulíf Íslendinga. Með þessari ákvörðun stefnir flokkurinn í þveröfuga átt. Hann tekur þátt í því með afturhaldsöflum Framsóknarflokksins að loka dyrum til umheimsins.

Ég spái því hins vegar að flokkurinn og ríkisstjórnin sé ekki búin að bíta úr nálinni með þessa ákvörðun. Sjálfstæðisflokkurinn var í sögulegu mjög lágu fylgi í síðustu kosningum. Fjöldi manns ákvað að hverfa ekki frá stuðningi við hann út af loforði Bjarna. Nú tel ég að það kunni að verða meira en sytur sem frá honum rennur,“ sagði Össur í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina