Hagsmunir vegna hvalveiða verði metnir

mbl.is/ÞÖK

Átta stjórnarandstöðuþingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að fjármála- og efnahagsráðherra láti fara fram mat á heildarhagsmunum Íslands vegna hvalveiða í íslenskri lögsögu.

Metnir verði efnahagslegir og viðskipalegir hagsmunir, hagsmunir sjávarútvegs og ferðaþjónustu sem og áhrif hvalveiða á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og á samskipti við einstök ríki.

Lagt er til að ráðherra skili Alþingi skýrslu um heildarhagsmunamatið fyrir árslok 2014.

Í greinargerð með tillögunni segir að veiðar á langreyð séu stundaðar af einu fyrirtæki, Hval hf., frá maí og fram á haust. Veiðarnar séu umdeildar þar sem langreyður er á lista CITES yfir dýr í útrýmingarhættu.

„Sterk krafa er í Bandaríkjunum um refsiaðgerðir gegn Íslandi og Bandaríkjaþing hefur virkjað hinn svokallaða Pelly-viðauka sem veitir forsetanum rétt til að ákvarða aðgerðir á borð við viðskiptaþvinganir,“ segir í greinargerðinni.

Þingmennirnir eru þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert