Víetnamar mótmæltu ágangi Kínverja

Víetnamar á Íslandi mótmæltu eftir hádegið fyrir utan kínverska sendiráðið. Áður höfðu þeir afhent beiðni í utanríkisráðuneytinu um að íslensk stjórnvöld aðstoði Víetnam vegna ágangs Kínverja í víetnamskri landhelgi.

Þeir segja að Kínverjar hafi meðal annars komið upp olíuborpalli innan landhelgi Víetnams og hafi þannig brotið gegn fullveldi landsins.

Þetta segja mótmælendur að skaði orðspor Víetnams og raski öryggi við strendur landsins.

Sökum þessa biðja Víetnamar á Íslandi um aðstoð stjórnvalda í trausti fjörutíu ára vinasambands Víetnams og Íslands.

Farið er fram á að íslensk stjórnvöld fordæmi aðgerðir Kínverja og hvetji alþjóðasamfélagið til að setja þrýsting á kínversk stjórnvöld.

mbl.is