Ásakanir áttu erindi við almenning

Bjarki Diego, Steingrímur Sævarr Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Pressunnar, Ingibjörg Ólöf …
Bjarki Diego, Steingrímur Sævarr Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Pressunnar, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir og Ásta Sigríður Knútsdóttir. mbl.is/Þórður

Umfjöllun um ásakanir á hendur Gunnari Þorsteinssyni um kynferðisbrot var í góðri trú og byggð á ummælum nafngreindra kvenna sem stigu fram og báru hann sömu eða sambærilegum sökum. Miðlunin hafi átt fullt erindi til almennings. Þetta sagði lögmaður fyrrverandi ritstjóra Pressunnar.

Aðalmeðferð í meiðyrðamáli Gunnars gegn tveimur konum, Steingrími Sævari Ólafssyni fyrrverandi ritstjóra Pressunnar og útgáfufélagi sama miðils hélt áfram í dag. Áður hefur verið greint frá helstu atriðum úr málflutningsræðu lögmanns Gunnars en í kjölfar hennar var komið að Bjarka H. Diego, lögmanni Steingríms Sævars.

Eins og fram hefur komið krefst Gunnar að tiltekin ummæli sem birtust í tíu greinum sem birtar voru á Pressunni verði dæmd dauð og ómerk. Einnig að Steingrímur Sævarr og konurnar tvær, s.s. talskonur þeirra kvenna sem sökuðu Gunnar um brot gegn sér, greiði saman fimmtán milljónir króna í miskabætur.

Bjarki benti á að sönn ummæli geti ekki talist ærumeiðing og vísaði til þess að konurnar komu flestar fyrir dóminn og greindu frá brotum Gunnars. Hann sagði að „miklu verri“ ummæli hafi komið fram þegar teknar voru skýrslur af konunum í gær og í fréttum af aðalmeðferðinni. „Á þá að refsa þeim blaðamönnum sem birtu þau ummæli?“ 

Hann sagði að Pressan hefði dregið gríðarlega mikið úr þegar fjallað var um ásakanir kvennanna. Umfjöllunin hafi verið fagleg og Gunnari ávallt gefinn kostur á að svara þeim ásökunum sem bornar voru á hann. 

Á að múlbinda blaðamenn?

Bjarki sagðist þeirrar skoðunar að tjáningarfrelsi skuli aldrei vera óheft og menn eigi að bera ábyrgð á óviðurkvæmilegum ummælum sínum eða þeim sem stangast á við mörk tjáningarfrelsisins. „Ef við förum í gegnum þá umfjöllun sem hér er fjallað um, er það virkilega þannig að þau ummæli sem fram komu í miðlum Pressunnar hafi ekki átt erindi til almennings?“

Hann spurði einnig hvort blaðamaður eigi að láta sem ekkert sé þegar hann fái vitnisburð, ekki eins eða tveggja heldur sjö kvenna, kvenna sem ekki tengjast og hafi ekki hist í áratugi en eigi það sammerkt að saka Gunnar Þorsteinsson um sambærileg brot. „Er það bannað að viðlagðri refsingu að miðla þessum upplýsingum? Á að leggja þá skyldu á blaðamenn að þeir séu múlbundnir? Það er dómsins að meta það.“

Ennfremur sagði Bjarki að það væri algjörlega augljóst að ekki hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins í þessu máli. „Þetta var fagleg umfjöllun og óhlutdræg, og það var gríðarlega mikið dregið úr því sem vitnin höfðu fram að færa.“

Að endingu spurði hann um rétt kvennanna og hvort þær megi ekki tala um upplifun sína. „Er það samfélag sem við viljum? Ég vil það ekki, Mannréttindadómstóll Evrópu vill það ekki og Hæstiréttur vill það ekki. Það vill það enginn.“

Stigu fram fyrir skjöldu 

Að endingu flutti ræðu sína Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, lögmaður talskvennanna, þ.e. Ástu Sigríðar H. Knútsdóttur og Sesselju Engilráðar Barðdal. Hún sagði það hafa komið í þeirra hlut að stíga fram fyrir skjöldu til að verja þær konur áreiti sem sökuðu Gunnar um refsiverða háttsemi. „Þær komu aðeins fram sem boðberar frásagna þessara kvenna. Þær konur sem sökuðu stefnanda um kynferðisofbeldi hafa vitnað um það að Ásta og Sesselja voru aðeins að bera um það sem þær höfðu sagt.“

Hún sagði að þær Ásta og Sesselja geti ekki borið ábyrgð á því hvernig Pressan setti fram fréttir sínar og í raun séu þær ekki aðilar að málinu. Þau ummæli sem stefnt er vegna og koma fram í bréfi sem sent var stjórn Krossins og Pressunni sé alfarið skrifað af konunum sem sökuðu Gunnar um ofbeldi. „Þær geta ekki borið ábyrgð á þessum ummælum.“

Auk þess sagði Ingibjörg að háttsemi Ástu og Sesselju væri fráleitt til þess fallin að meiða æru Gunnars. Hann eða Jónína Benediktsdóttir, eiginkona hans, hafi farið með málið í fjölmiðla og Gunnar hafi veitt mörg viðtöl áður en þær sendu Pressunni umrætt bréf. „Það er ekki hægt að einn aðili vaði uppi í fjölmiðlum og þær megi ekki svara fyrir sig. [...] Þær áttu ekki annarra kosta völ en að verjast fyrir hönd kvennanna.“

Ennfremur sagði hún að sannleiksgildi ummælanna hefði ekki verið hnekkt og það að rannsókn mála á hendur Gunnari hafi verið hætt breyti því ekki. Þá hafi það þjónað almannahagsmunum að upplýsa um málið, það sé öðrum víti til varnaðar.

Aðalmeðferð málsins er lokið og verður dómur kveðinn upp innan fjögurra vikna.

Gunnar Þorsteinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun.
Gunnar Þorsteinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun. mbl.is/Þórður
mbl.is