Formlega sótt um framsal

mbl.is/Júlíus

Sótt hefur verið formlega um framsal á íslensku stúlkunum tveimur sem afplána nú fjögurra og hálfs árs dóma í Tékklandi fyrir fíkniefnasmygl. Að sögn Þóris Gunnarssonar, aðalræðismanns Íslands í Tékklandi, er búist við því að ferlið geti tekið nokkra mánuði. 

„Í næstu viku verður beiðnin komin í ráðuneytið hérna í Tékklandi og þá getum við farið að þrýsta á þetta aftur hérna úti,“ segir Þórir. Hann segir stúlkurnar hafa það gott í fangelsinu miðað við aðstæður. „Þær eru komnar á endanlegan stað í fangelsinu í Tékklandi og fengu vinnu í súkkulaðiverksmiðju þar rétt hjá í átta tíma á dag. Það er meira frjálsræði þar en á fyrri staðnum.“

Þórir segir að lettnesk stúlka hafi fyrir stuttu gengið í gegnum svipað framsalsferli og íslensku stúlkurnar og hafi það ferli tekið alls átta mánuði. „Ef þær verða framseldar til Íslands gilda svo sömu reglur og í Tékklandi, að þær verði að afplána einn þriðja af dómnum áður en þær fá reynslulausn. Sem rökstuðning fyrir framsalinu munum við benda á að stúlkurnar eru ungar og hafi ekki vitað hvað þær voru að gera. Þær vilja svo báðar mennta sig og það gengur ekki á meðan þær eru í fangelsi úti í Tékklandi.“

Dómarnir yfir stúlkunum voru mildaðir frá upphaflegu dómunum. Önnur stúlkan var upphaflega dæmd í sjö ára fangelsi og hin í sjö og hálfs árs fangelsi. Voru báðir dómarnir styttir í fjögur og hálft ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert