Staða stærðfræðikennslu er slæm

Skortur er á vönduðu kennsluefni í stærðfræði og menntun stærðfræðikennara …
Skortur er á vönduðu kennsluefni í stærðfræði og menntun stærðfræðikennara víða ábótavant. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ný skýrsla sem unnin var fyrir Menntamálaráðuneytið dregur upp báglega mynd af ástandi stærðfræðikennslu við íslenska framhaldsskóla. Skýrsluhöfundum var falið að skoða ástandið árið 2012 og birtist skýrslan á vef ráðuneytisins í dag, en Fréttablaðið greindi frá málinu í morgun.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að ekkert gæðaeftirlit með kennslunni sé til staðar í íslenskum framhaldsskólum, skortur sé á vönduðu kennsluefni í faginu og að menntun stærðfræðikennara sé víða ábótavant. Fyrir vikið hafi sumir skólar ekki nægilega vel menntaða kennara til að starfrækja náttúrufræðibrautir. Þá er samráð milli skólastiga of lítið af mati skýrsluhöfunda og mikill munur er á stöðu nemenda eftir því úr hvaða skólum þeir útskrifast.

Fjarri því að uppfylla kröfur

Hvort sem litið er til HÍ eða HR þá lendir a.m.k. helmingur þeirra sem byrja í
verkfræðinámi í vandræðum með stærðfræði. Dæmi eru um að kennarar í háskólum hafi þurft að slaka á kröfum í náminu vegna lélegs undirbúnings nemenda við útskrift úr framhaldsskólum.

Á heildina litið séu framhaldsskólarnir fjarri því að uppfylla þær kröfur, sem settar eru fram í áfangalýsingum aðalnámskrár frá 1999 og hæfniþrepum í aðalnámskrá frá 2011.

Í skýrslunni koma fram fjölmargar tillögur til úrbóta á þessu ástandi, meðal hverra er að koma á fót sérstöku fagráði sem skuli hafa umsjón með endurmenntun kennara, kennsluefni og kennslu í framhaldsskólastærðfræði.

Þeim Jóni Ingólfi Magnússyni og Rögnvaldi G. Möller prófessorum í stærðfræði var upphaflega falið að finna hóp fólks í verkið. Skýrslan er unnin af hópi sem starfar hvorki hjá ráðuneytinu né í framhaldsskólum en hefur þekkingu af viðfangsefninu.

Skýrsluna má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert