Skjálftahrina í Mýrdalsjökli

Mýrdalsjökull
Mýrdalsjökull mbl.is/Rax

Hrina jarðskjálfta varð í Mýrdalsjökli fyrir hádegi, í um 20 mínútur frá klukkan 11. Stærsti skjálftinn var um 3,1 á stærð samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands, en nokkrir skjálftar mældust milli 2 og 3 stig. Í kjölfarið fylgdu hátt í 20 eftirskjálftar. Náið er fylgst með því hvort hlaup hefjist að nýju.

Martin Hensch, eldfjallajarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að upptök jarðskjálftanna liggi grunnt, aðeins um 1 km undir yfirborðinu og nærri jarðhitakötlum undir jökulhettunni. Því sé líklegt að skjálftarnir tengist aukinni jarðhitavirkni.

„Þeir eru grunnir og við sjáum engin merki um að hreyfing sé á bergkviku. Við fylgjumst mjög náið með þessu, því það er aukin hætta á að hlaup hefjist að nýju í kringum Kötlu. En eins og stendur sjáum við engan gosóróa, órói undir jökli myndi vera merki um frekari flóð, en við sjáum ekki að svo sé.“

Óvissustigi vegna vatna­vaxta og hlaupa í Múla­kvísl og Jök­ulsá á Sól­heimas­andi var aflétt í gær. Ferðamenn eru því aftur komnir upp að jöklinum, en að sögn Martins bárust engar tilkynningar um að skjálftarnir hefðu fundist.

„En yfirleitt er það þannig að svona atburðir í Kötlu finnast ekki, svo það kemur ekki á óvart. Við höfum séð svipaðar hrinur síðustu daga, að vísu ekki alveg upp að 3 að stærð, en við teljum að þetta tengist jarðhitakerfinu. Það voru nokkrir eftirskjálftar en nú er orðið nokkuð rólegt aftur og engin merki um annað jökulhlaup.“

Staðsetning skjálfta í Mýrdalsjökli 15. júlí. Græna stjarnan merkir skjálfta …
Staðsetning skjálfta í Mýrdalsjökli 15. júlí. Græna stjarnan merkir skjálfta yfir 3 stigum.
mbl.is