Bjarni: Þurfum ekki aðild að ESB

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Engin þörf er fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtali við sjónvarpsstöðina CNBC í morgun. Ráðherrann var spurðir að því hvort næsta skref fyrir landið væri ekki innganga í sambandið og upptaka evru. Vísað var til þess að innan ESB væri skjól og stöðugleiki.

Bjarni sagðist ekki vita hvort sá stöðugleiki sem væri til staðar innan sambandsins væri endilega það sem Íslendingar sæktust eftir. Ekki væri eftirsóknarvert að búa við stöðnun. Þess utan nytu Íslendingar þegar helstu kosta þess að vera í ESB með aðild Íslands að innri markaði sambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Hins vegar stæði þjóðin fyrir utan aðra hluti ESB sem hentuðu hagsmunum hennar ekki líkt og sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins. 

Bjarni var ennfremur spurður að því hvort hann teldi að ef Bretum stæði til boða sama staða og Íslendingar hefðu gagnvart ESB hvort þeir myndu vilja hana. Hann svaraði því til að honum virtist þeir vera meira eða minna að óska eftir því sama. Vísaði hann þar til þess að bresk stjórnvöld hafa vilja endurheimta vald yfir ýmsum málum frá sambandinu.

 

mbl.is