Spítalinn á inni yfir milljarð

Landspítalinn á inni yfir milljarð.
Landspítalinn á inni yfir milljarð. Morgunblaðið/Eggert

Landspítalinn á inni ríflega 1.230 milljónir í útistandandi kröfum, eins og staðan var 31. september 2014. Sumar eru gjaldfallnar, aðrar ekki.

Ógreidd sjúklingagjöld á Landspítalanum nema um 310 milljónum. Skuldir á erlendum kennitölum, oft skuldir ósjúkratryggðra einstaklinga við spítalann, eru um 220 milljónir. Þá nema aðrar skuldir við spítalann, t.d. fyrirtækja og annarra heilbrigðisstofnana, um 700 milljónum. Heildarkröfurnar hafa lítið hækkað frá sama tíma í fyrra en síðan þá hafa tvisvar verið gerðar breytingar á gjaldskrá, komugjöld fyrir sjúklinga hækkuðu um síðustu áramót og um mitt árið, að sögn Sigrúnar Guðjónsdóttur, deildarstjóra á fjármálasviði.

Kröfur á útlendinga erfiðar

Kröfur vegna ósjúkratryggða einstaklinga er erfiðast að innheimta en það eru kröfur á útlendinga sem hafa þurft læknisþjónustu hér og Íslendinga sem hafa ekki dvalið lengur en sex mánuði í landinu og því ósjúkratryggðir hér. „Það tekur yfirleitt langan tíma að innheimta þessar kröfur. Þær koma yfirleitt í sveiflum, á góðærisárunum þegar það var mikið af erlendum verkamönnum hérna var þetta dálítið mikið en datt svo niður en með auknum ferðamannafjölda fjölgar þeim aftur. Oft eru þetta mjög háar kröfur, ef sjúklingur liggur lengi á gjörgæslu getur hver reikningur skipt mörgum milljónum,“ segir Sigrún. Alltaf þarf að afskrifa eitthvað af kröfum á útlendinga enda ekki hægt að elta menn uppi á kennitölum eins og á Íslandi.

Sigrún segir að það gangi heldur verr að innheimta nú en oft áður og þá hafi staðgreiðsluhlutfallið líka lækkað á spítalanum sem gerir það að verkum að það hlutfall sem ekki næst inn hækkar.

Íslendingar skulda 310 milljónir í komugjöld og sjúklingagjöld. 700 milljónirnar tilheyra svo fyrirtækjum og stofnunum t.d. Sjúkratryggingum Íslands og öðrum heilbrigðisstofnunum sem Landspítalinn selur rannsóknarþjónustu.

„Það yrði gott að ná þessum pening inn. Við gerum okkar besta en þessar upphæðir eru alltaf svipaðar á milli ára,“ segir Sigrún. Ekki stendur til að breyta innheimtuferlinu, það fá allir greiðsluseðil, áminningarbréf og ítrekunarbréf og ef greiðslan skilar sér ekki eftir það fer reikningurinn í innheimtu til lögfræðistofa sem eru t.d. í samskiptum við erlendar innheimtustofur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert