Vandinn er skortur á löglegu framboði

Breyta þarf lagaumhverfinu í tengslum við framboð á höfundarréttarvörðu efni …
Breyta þarf lagaumhverfinu í tengslum við framboð á höfundarréttarvörðu efni á netinu. mbl.is/Kristinn

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir sorglegt fyrir internetið að Héraðsdóm­ur Reykja­víkur hafi lagt fyr­ir Sýslu­mann­inn í Reykja­vík að leggja lög­bann við þeirri at­höfn Voda­fo­ne og Hringdu að veita viðskipta­mönn­um sín­um aðgang að deildu.net og Pira­tebay, en þar er deilt höf­und­ar­vörðu efni. Hann segir að vandamálið snúist um skort á löglegu framboði.

Helgi tekur hins vegar fram að það sé eitt gott við þessa niðurstöðu og eitt slæmt.

„Það góða er að þetta mun ekki virka.“ Aðspurður segir hann að eftirspurnin sé gríðarleg - og í raun óseðjandi - og aðferðir séu til staðar sem geri fólki kleift að nálgast efnið með sama hætti og áður. „Ef viðkomandi ætlar sér að komast fram hjá svona vörnum þá mun hann komast fram hjá svona vörnum.“

Óttast gerræði

„Það slæma við þetta er, að þegar menn uppgötva að þetta sé ekki að virka og geti ekki virkað þá vilja þeir [yfirvöld] ganga lengra. Þá fara þeir sennilega að tortryggja þær aðferðir sem hægt er að nota til að komast fram hjá þessu - og þær aðferðir sem er hægt að nota til að komast framhjá þessu eru mjög lögmætar og eru víða notaðar. Þær eru í raun og veru hluti af því hvernig internetið sjálft virkar,“ segir Helgi.

Hann bendir á að þessi að ekki sé hægt að takmarka aðgengi fólks að höfundarréttarvörðu efni á netinu með tæknilegum leiðum nema með gerræði. „Það þarf að ganga alla leið,“ segir Helgi og bætir að þetta muni ekki virka fyrr en hlutirnir komist á það stig. Það sé hættulegt.

Fólk er til í að greiða fyrir góða þjónstu

Helgi segir að hugsa þurfi málið upp á nýtt, þ.e. á hvaða forsendum viðskiptamódel með höfundarréttarvörðu efni eigi að byggja. 

„Það sem Smáís og Stef ættu miklu frekar að gera er að aðstoða - og gagnrýna reyndar - lagalega framboðið. Vandinn er í sjálfu sér skortur á löglegu framboði. Fólk er alveg til í að borga fyrir efni, Netflix og Spotify sanna það. En lagaumhverfið í kringum þau eru kannski ekki endilega hentug fyrir listamenn og framleiðendur. Þar ætti fókusinn að vera,“ segir hann, þ.e. að uppfæra viðskiptamódelið í takt við tæknina.

„Fólk vill bara almennilega þjónustu á almennilegu verði.“ 

Ætli menn sér að standa í því að berjast við tæknina þá þurfi menn að ganga mjög langt, í raun mun lengra heldur en menn vilji gera í lýðræðissamfélagi. Vandamálið sé það að á meðan tækninni fleygir fram þá er löggjafinn ávallt mörgum skrefum á eftir.

Löggjafinn mörgum skrefum á eftir tækninni

„Það eina sem gerir þessa tæknibyltingu öðruvísi en hinar er að hún gerist svo hratt. Það tók rafmagnið einhver 50 ár að umbylta heiminum, á meðan internetið er búið að gera það á um 10-15 árum,“ segir Helgi og bætir við að viðskiptamódel í tengslum við netið hafi einnig úrelst hratt. Netflix og Spotify séu til að mynda enn tilraunir og það eigi eftir að koma í ljós hvort þær muni ganga upp. 

Sjálfur segist Helgi lítið nota síður á borð við Piratebay. Hann geri það helst til að nálgast ókeypis efni sem sé vandfundið annars staðar, t.d. heimildarmyndir og fræðsluefni. 

Á heimasíðu deildu.net er vakin athygli á því að síðan hafi fært sig yfir á annað lén, eða iceland.pm. Spurður út í það segir Helgi að væntalega vilji menn banna það líka. „Það eru sömu rök og sömu aðferðir. Þá finna þeir nýtt lén og svo koll af kolli. Þetta verður eins og hundur sem er að eltast við skottið á sér. Þetta mun aldrei takast. Spurningin er hvenær á að hugsa þetta upp á nýtt og gefast upp á þessari vitleysu,“ segir Helgi að lokum.

Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum í Reykjavík er lögbannsbeiðnin ekki komin inn á borð embættisins.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Píratar, ræðir málin á Alþingi.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Píratar, ræðir málin á Alþingi. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert