Bylting í stjórnun gervihanda

Max Ortiz (til vinstri) og Magnus Niska (miðjunni) fyrsti maðurinn …
Max Ortiz (til vinstri) og Magnus Niska (miðjunni) fyrsti maðurinn til að nýta nýja aðferð Max við stjórnun á gervihendi sinni. Ljósmynd/ Max Ortiz Catalan

Miklar framfarir áttu sér stað nú á dögunum í Svíþjóð þegar grædd voru rafskaut á taugar og vöðva í handlegg sænsks manns svo hann gæti stjórnað gervihendi sinni með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr.

Vísindamaðurinn Max Ortiz Catalan hjá fyrirtækinu Integrum í Svíþjóð hannaði nýja aðferð við notkun rafskauta sem nú hafa verið kynnt til leiks. Klínísk tilraun á aðferðinni hefst bráðlega þar sem fylgst verður grannt með tíu einstaklingum með gervihendur sem fá rafskautin grædd í handlegg sinn og kannað verður hvort einhver vandkvæði koma upp.

Rannveig Ása Guðmundsdóttir, heilbrigðisverkfræðingur hjá Integrum, hefur starfað með Catalan að þróun nýju aðferðarinnar við ígræðslu rafskautanna  og stjórnar klínísku tilrauninni.

Ekki er von á neinum óvæntum uppákomum í tilrauninni, „við verðum búin að undirbúa okkur það vel þannig að tilraunin gangi sem best fyrir sig“ segir Rannveig og bætir við að reynsla þeirra af manninum sem nú þegar nýtir sér nýju rafskautin sé afar góð og hafi aðgerðin bætt lífsskilyrði hans til muna.

Hún reiknar með að þessi nýja aðferð við stjórnun gerviútlima við hendi verði aðgengileg almenningi eftir um tvö ár. „Þetta gerir fólki kleift að stjórna þessum háþróuðu gervihöndum sem ekki hefur verið hægt með góðu móti fram til þessa“ segir Rannveig glöð í bragði.

Títaníumplata grædd við bein

Forsendur þess að geta undirgengist aðgerðina og öðlast þannig betri stjórn á gervihendinni er að hafa áður fengið títaníumplötu grædda við beinið i handleggnum. Platan tengir gerviútliminn við handlegginn og leiðir boð frá taugum og vöðva á milli gervilims og handleggs og er því nauðsynleg til að ígræddu rafskautin þjóni tilgangi sínum.

Hingað til hefur sá háttur verið á að þeir sem hafa fengið ígrædda títaníumplötu við beinið notast við rafskaut sem sett er á húðina á handleggnum. Gallinn er sá að rétt merki berast illa frá vöðvunum til rafskautanna vegna húðar, fituvefja og annars sem truflar sendingarnar og valda óvelkomnum hreyfingum gervihandarinnar, t.d. að höndin opnast skyndilega eða helst lokuð þrátt fyrir vilja um annað.

Ytri aðstæður eins og veðurfar hafa þá einnig áhrif á stjórnun gervilimsins að sögn Rannveigar en þegar kalt er í veðri er algegnt að gervilimurinn hreinlega virki ekki.

Tilfinning næsta skrefið

Rannveig er mjög bjartsýn á verkefnið og framtíðina. „Þessi nýja aðferð við stjórnun gervihandar býður einnig upp á frekari möguleika sem gætu breytt upplifun þeirra sem notast við slíkan gerviútlim“ en þar á hún við „sensory feedback“ sem þýðir að einstaklingur með gervihönd getur fundið fyrir því sem hann snertir. Nemar á gervihendinni gæfu þá merki sem bærust í taugina þar sem rafskautin eru ígrædd og þaðan upp í heila og úr verður tilfinning.

Hér má sjá myndband sem sýnir samanburð á eldri aðferð við stjórnun gervihandar og nýju aðferðinni sem Max Ortiz þróaði. Maðurinn í myndbandinu er sá fyrsti sem fær notið nýju aðferðarinnar og er aukin stjórn hans á gervihendinni augljós.

Magnus Niska er nú fært að nýta gervihendi sína til …
Magnus Niska er nú fært að nýta gervihendi sína til allra fínhreyfinga án þess að óttast skyndilegar óvelkomnar hreyfingar. Ljósmynd/ Max Ortiz Catalan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert