„Þetta hefur farið laglega úr böndunum“

Karl Wernersson situr í sófanum fyrir utan dómsal 101 í …
Karl Wernersson situr í sófanum fyrir utan dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta hefur farið laglega úr böndunum,“ sagði Arngrímur Ísberg dómsformaður í máli sérstaks saksóknara á hendur fyrrverandi eigenda og helstu stjórnenda Milestone og þriggja endurskoðenda. Aðalmeðferð hófst í morgun og hefur skýrslutaka yfir Karli farið vel fram úr áætlun saksóknara.

Í mál­inu eru Guðmund­ur Ólason, fv. for­stjóri Milest­one, Karl Werners­son, fv. stjórn­ar­formaður, og Stein­grím­ur Werner­son, fv. stjórn­ar­maður, ákærðir fyr­ir umboðssvik, meiri­hátt­ar brot á bók­halds­lög­um og lög­um um árs­reikn­inga í tengsl­um við greiðslur til Ing­unn­ar Wernersdóttur en þær námu á sjötta millj­arð króna.

Jafn­framt eru end­ur­skoðend­urn­ir Hrafn­hild­ur Fann­geirs­dótt­ir, Mar­grét Guðjóns­dótt­ir og Sig­urþór Char­les Guðmunds­son, öll frá end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­inu KPMG, ákærð fyr­ir brot gegn lög­um um end­ur­skoðend­ur. Þau Mar­grét og Sig­urþór eru enn­frem­ur ákærð fyr­ir meiri­hátt­ar brot á lög­um um árs­reikn­inga vegna viðskipt­anna.

Gáttaður á ákæru í málinu

Viðskipt­in gengu út kaup Karls og Stein­gríms á hluta­fé Ing­unn­ar, syst­ur þeirra, í Milest­one. Í ákær­unni er greint frá því að það hafi verið gert með fléttu sem fólst í því að Milest­one fjár­magnaði kaup­in. Með henni hafi stjórn­end­ur Milest­one komist hjá því að fjár­mögn­un hluta­bréfa­kaup­anna kæmi til lækk­un­ar á bók­færðu eig­in fé Milest­one.

Skýrslutakan yfir Karli hófst á því að hann gaf yfirlýsingu. Sagði hann fyrirtækið hafa verið lítið þegar kom að starfsmannafjölda og því hafi ákvarðanataka verið óformleg. Engar lánareglur hafi verið í félaginu, engin lánanefnd, innri endurskoðandi eða þess háttar. Fimm einstaklingar hafi séð um hugmyndavinnu og ákvarðanatöku. 

Félagið hafi keypt þjónustu færustu sérfræðinga fyrir mikið fé og mikið kapp hafi verið lagt á að fara að lögum í einu og öllu. Þegar Ingunn hafi tilkynnt að hún hygðist selja hluti sína í Milestone í árslok 2005 hafi verið farið í viðræður við hana og gerðu endurskoðendur á sama tíma verðmat á þeim hlutum. Þar sem þetta bar brátt að hafi hins vegar ekki verið útfært hver ætti að verða endanlegur kaupandi bréfanna. Úr varð að Milestone fjármagnaði kaupin með brúarláni.

Karl sagði að við gerð ársreiknings fyrir árið 2006 hafi verið rætt um að félagið Leiftri, sem skráð var á Tortóla, yrði kaupandi. Milestone myndi lána félaginu fyrir kaupverðinu og þá eignast endurgreiðslukröfu á Leiftra. Hann sagði að staða félaganna allra á þessum tíma hefði verið mjög sterk og því hafi fjártjónshættan verið lítil sem engin.

Hann sagðist vera gáttaður á ákærunni í málinu. Skriflegir samningar liggi fyrir og öll framkvæmd hafi verið í höndum lögfræðinga og endurskoðenda. Ekkert hafi verið falið í viðskiptunum og allt uppi á borðum. Karl sagðist hafa unnið verk sín eftir bestu samvisku og eftir ráðgjöf færustu sérfræðinga.

Brúarlán vegna millibilsástands

Spurður út í umrætt brúarlán Milestone og hvort samningar hafi verið gerðir um það sagði Karl svo ekki vera. „En við hugsuðum þetta þannig að þetta væri millibilsástand þangað til búið væri að taka endanlega ákvörðun. Þessi fjármögnun var gerð til að viðskiptin gætu gengið eðlilega fyrir sig.“ Milestone hafi því fjármagnað kaupin fyrir mögulegan hóp kaupenda.

Hann sagðist ekki hafa velt fyrir sér hvers vegna Ingunn hafi valið að selja og myndi ekki hvort hann hafi brugðist við þeirri ákvörðun á nokkurn hátt.

Nánar spurður um þá ákvörðun að Leiftri eignaðist bréfin sagði Karl: „Það var ýmsum hugmyndum kastað fram á árinu 2006, en það var ekki fyrr en við frágang ársreikningsins 2006 að þessi hugmynd kemur upp, að Leiftri verði eigandi bréfanna og Milestone Import Export taki lán hjá Milestone til að greiða fyrir þau.“

Í ársreikningi Milestone fyrir árið 2006 kemur engu að síður fram að Ingunn eigi 15,3% hlut í félaginu. Saksóknari spurði út í þá staðreynd og sagði Karl að hann skyldi það ekki en að þetta væri mjög prentvillulegt. 

Skýrslutöku yfir Karli átti að ljúka klukkan 10.45 en ljóst var á þeim tíma að hún myndi dragast. Þegar klukkan var 11.40 sagðist saksóknari enn eiga mikið eftir. Þá gerðist það að upptökutækið í dómsal 101 bilaði og ekki var hægt að halda skýrslutökunni áfram. Var málinu því frestað fram til eftir hádegi.

Til stendur að taka skýrslutöku af öllum sakborningum í dag, en alls óvíst er hvort það takist.

mbl.is