„Þessi kæra var ekki að detta í hús í gær“

Karla Wernersson sakar héraðssaksóknara um að aðstoða þrotabú sitt í …
Karla Wernersson sakar héraðssaksóknara um að aðstoða þrotabú sitt í tengslum við rekstur riftunarmála gegn sér sem núna eru í gangi. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari hafnar slíkum fullyrðingum og segir húsleitirnar eiga sér langan aðdraganda. Samsett mynd

Ráðist var í húsleit hjá Karli Wernerssyni, einum af fyrrverandi aðaleigendum fjárfestingafélasins Milestone, í gær í tengslum við rannsókn embættis héraðssaksóknara á þó nokkrum tilvikum frá þrotabúi Karls, en hann var úrskurðaður gjaldþrota árið 2018.

Þrotabúið höfðaði í kjölfarið nokkur riftunarmál þar sem talið var að eignum hefði verið komið undan kröfuhöfum, meðal annars með því að eignum Karls væri komið yfir til sonar hans, Jóns Hilmars Karlssonar. Héraðssaksóknari hafnar fullyrðingum Karls um að húsleitirnar fari nú fram vegna dómsmála sem eru þegar í gangi gegn Karli.

Tilkynningar um möguleg brot frá þrotabúi Karls

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að húsleitirnar í gær hafi verið á vegum embættisins en með aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Staðfestir hann jafnframt að þrotabú Karls hafi sent þó nokkrar tilkynningar um atvik til embættisins og að rannsókn hafi staðið yfir í nokkurn tíma. Í gær hafi svo verið farið í aðgerðir að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Árni Ármann Árnason, skiptastjóri bús Karls, segir í samtali við mbl.is að þrotabúið hafi undanfarin ár reynt að rifta gerningum Karls fyrir gjaldþrotið. „Búið að reka einkamál til að reyna að rifta þessum gerningi þegar Karl afhenti syni sínum félagasamstæðuna sína á sínum tíma,“ segir hann.

Lyf og heilsa, hrossaræktunarbúgarður og hús í Toscana

Þegar hafa tvö mál unnist í Landsrétti sem höfðuð voru af þrotabúinu, en tvö önnur mál eru einnig í gangi. Annað þeirra sé komið upp í Landsrétt eftir að hafa unnist í héraði og tengist ýmsum ráðstöfunum sem gerðar voru fyrir gjaldþrotið, en hitt málið sé í raun riftunarmál á færslu félagsins Toska frá Karli til sonar síns. „Þetta er þegar félagssamstæðan er afhent,“ segir Árni, en Toska var móðurfélag eigna Karls og dótturfélögin Faxi og Faxar heyra þar undir. Meðal eigna er lyfjaverslunarkeðjan Lyf og heilsa, hrossaræktunarbúgarðurinn Feti og Galtalækjaskógur sem og 1.100 fermetra hús Karls í Toscana-héraði á Ítalíu.

Milestone-málið aftur fyrir dómstóla hér eftir óréttláta málsmeðferð

Í tilkynningu sem Karl sendi á fjölmiðla í morgun vegna húsleitarinnar segir hann að um sé að ræða „ofsóknir yfirvalda á hendur mér vegna meintra bókhaldsbrota.“ Vísar hann þar til þess að hafa verið dæmdur sekur í Milestone-málinu í Hæstarétti árið 2016 eftir að hafa verið sýknaður í héraði.

Í fyrra var svo greint frá því að ríkið hefði viðurkennt að brotið hefði verið á rétti fimm manns til rétt­látr­ar málsmeðferðar í mál­um sem höfðuð voru gegn þeim eft­ir fjár­mála­hrunið árið 2008 og greiðir hverju þeirra um 1,8 millj­ón­ir króna. Þar á meðal voru Karl og Sig­urþór Char­les Guðmunds­son, fyrr­ver­andi end­ur­skoðandi Milest­one. Samþykkti endurupptökunefnd svo í janúar á þessu ári endurupptöku Milestone-málsins vegna þessa.

Karl tengir húsleitina við núverandi dómsmál

Karl segir í tilkynningunni í morgun að þessi mál hafi nú tekið 14 ár og á þeim tíma hafi hann setið í fangelsi, verið á áfangaheimili og verið í stofufangelsi. Gagnrýnir hann tímasetningu húsleitanna og spyr hvort tímasetningin sé tilviljun.

„Í kjölfar þessarar niðurstöðu hjá Mannréttindadómstól Evrópu og Endurupptökudómi og í kjölfar þess að sakamálið er aftur komið til meðferðar hjá Hæstarétti, virðist yfirvöldum þykja viðeigandi að hefja ofsóknirnar upp á nýtt með húsleit á heimili mínu, vinnustað mínum og heimili fjölskyldumeðlima ásamt fleiri aðilum. Virðist tilgangurinn vera sá að aðstoða þrotabú mitt vegna dómsmála sem það er að reka í dómskerfinu. Ekki er talið nóg að þrotabúið reyni að sækja fjármuni heldur ákveður yfirvaldið að rétt sé, þegar von er á dómi á næstu dögum, að hefja sakamálarannsókn. Ég spyr því. Er þessi tímasetning tilviljun? Er það tilviljun að hafin sé sakamálarannsókn á grundvelli gamallar kæru nokkrum dögum fyrir dómsniðurstöðu í tengdu einkamáli? Er þörf á húsleit vegna viðskipta sem eru 8 ára gömul? Eða er kannski verið að reyna að hafa áhrif á dómara sem eru þessa dagana að kveða upp dóm? Eru mannréttindi bara sumra en ekki annarra? Hvenær sættir yfirvaldið sig við að tilefnið var ekkert og nú sé nóg komið af stöðugum inngripum inn í líf fólks?“ segir í yfirlýsingu Karls.

Ólafur hafnar fullyrðingum Karls

Ólafur Þór segir spurður um þetta að rannsóknin hafi staðið yfir í nokkurn tíma og hafnar hann fullyrðingum Karls um ofsóknir. „Við höfnum öllum slíkum fullyrðingum. Við vinnum á grundvelli gagna sem okkur eru send og við þurfum að bregðast við. Það er eitthvað reynt að tengja málsmeðferðina í Strassborg í málum sem tengjast honum, en þessi kæra var ekki að detta í hús í gær,“ segir Ólafur.

Þegar Árni er spurður út í þessar ásakanir Karls segir hann riftunarmálin hluta af skyldu sinni sem skiptastjóra. „Þetta eru bara hefðbundin riftunarmál því skiptastjóri telur að það séu verulegar líkur á að eignum hafi verið skotið undan og þá er það skylda skiptastjóra að rifta slíkum gerningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert