Fallist á endurupptöku í Milestone-málinu

Sakborningar og verjendur þeirra í héraðsdómi árið 2013.
Sakborningar og verjendur þeirra í héraðsdómi árið 2013. mbl.is/Rósa Braga

Endurupptökudómur hefur fallist á endurupptöku í Milestone-málinu svokallaða, en þrjú af fimm sem voru sakfelld í málinu í Hæstarétti fóru fram á endurupptöku málsins eftir að íslenska ríkið viðurkenndi að hafa brotið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar.

Þau þrjú sem óskuðu eftir endurupptöku málsins eru þau Karl Emil Wernersson, einn af fyrrverandi aðaleigendum fjárfestingafélagsins Milestone og stjórnarmaður í félaginu, og Sigurþór Charles Guðmundsson og Margrét Guðjónsdóttir, sem voru endurskoðendur félagsins. Steingrímur Wernersson, bróðir Karls og einn af fyrrverandi aðaleigendum félagsins og Guðmundur Ólason, fyrrverandi forstjóri Milestone, höfðu ekki óskað eftir endurupptöku.

Í málinu voru bræðurnir Karl og Steingrímur fundir sekir ásamt Guðmundi fyrir að hafa látið Milest­one fjár­magna kaup bræðranna á hluta­fé syst­ur þeirra, Ing­unn­ar, í fé­lag­inu. Hafi verið með öllu óvíst frá hverj­um, hvenær eða með hvaða hætti Milest­one fengi fjár­mun­ina til baka.Margrét og Sigurþór voru fundin sek um brot á lögum um ársreikninga og lög um endurskoðendur við endurskoðun sína á ársreikningum félagsins árin 2006 og 2007.

Héraðsdómur hafði áður sýknað í málinu en Hæstiréttur sneri dóminum við og sagði að um­rædd­ir fjár­mögn­un­ar­samn­ing­ar hefðu eng­ar skuld­bind­ing­ar lagt á Milest­one held­ur ein­göngu Karl og Stein­grím en þrátt fyr­ir það hafi fé­lagið verið látið efna samn­ing­ana við Ing­unni upp á tæp­lega 5,1 millj­arð króna. þannig hefðu þeir mis­notað aðstöðu sína hjá Milest­one. Voru þeir jafnframt sakfelldir fyrir umboðssvik og fyrir meiriháttar brot gegn lögum um bókhald og ársreikninga og að hafa rangfært efnahagsreikninga félagsins. Voru Sigurþór og Margrét meðal annars svipt lög­gild­ingu til end­ur­skoðun­ar­starfa í sex mánuði.

Í sátt ríkisins og þremenninganna var meðal annars vísað til þess að Hæstiréttur hafi byggt niðurstöðu sína á endurmati réttarins á framburði ákærðu og vitna. Íslenska ríkið hafi viðurkennt að það endurmat hafi falið í sér brot gegn mannréttindasáttmála Evrópu með því að brjóta gegn reglunni um milliliðalausa málsmeðferð. Í niðurstöðu endurupptökudóms segir meðal annars að í sáttinni hafi falist sömu sjónarmið og lágu fyrir í niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Styrmis Þórs Bragasonar sem fór með sambærilegt mál fyrir dómstólinn. Í því felist meðal annars að óumdeilt sé að Hæstiréttur hafi lagt nýtt og víðtækara mat á staðreyndir málsins á grundvelli endurrita og munnlegra skýrslna sem gefnar voru fyrir héraðsdómi. Því hafi verið „verulegir gallar“ á meðferð málsins fyrir Hæstarétti sem hafi haft áhrif á niðurstöðu þess. Er því fallist á beiðnirnar um endurupptöku málsins.

Úrskurður endurupptökudóms í máli Karls

Úrskurður endurupptökudóms í máli Sigurþórs

Úrskurður endurupptökudóms í máli Margrétar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert