Hafnaði endurupptökubeiðni Steingríms

Steingrímur Wernersson.
Steingrímur Wernersson. mbl.is/Rósa Braga

Endurupptökudómur hafnaði beiðni Steingríms Wernerssonar um endurupptöku á Hæstaréttardómi sem féll í apríl 2016 í svokölluðu Milestone-máli, þar sem Steingrímur hlaut tveggja ára dóm. 

Endurupptökudómi barst beiðni frá Steingrími í nóvember þar sem hann krafðist þess að málið yrði endurupptekið hvað hann varðar og tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju fyrir Hæstarétti. Dómurinn hafnaði þeirri beiðni 16. maí.

Með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í var Steingrímur dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár. Meðákærðu Steingríms voru einnig sakfelld. Bróðir hans, Karl Emil Wernersson, var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi, Guðmundur Ólason í þriggja ára fangelsi og þau Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson hvort um sig í níu mánaða fangelsi en fullnustu þeirrar refsingar var frestað. Málið tengdist viðskiptum með hluti í eignarhaldsfélaginu Milestone ehf. og skyldum félögum.

Í nóvember á síðasta ári komst svo Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að end­urupp­teknu Milest­one-máli, er laut að þætti Karls og Sig­urþórs Char­les og Mar­grét­ar, skyldi vísað frá Hæsta­rétti. Stóð þar með sýknu­dóm­ur fjöl­skipaðs Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá því í des­em­ber 2014 sem Hæstirétt­ur sneri við í apríl 2016.

Gerði ekki sátt við ríkið eins og bróðir hans

Steingrímur vísaði í beiðninni sérstaklega til þess að ekki væri unnt að hafna beiðni hans um endurupptöku með vísan til grundvallarreglu réttarríkisins um jafnræði.

„Svo sem fyrr hefur verið rakið er staða endurupptökubeiðanda ólík stöðu Karls, Margrétar og Sigurþórs að því leyti að hann gerði ekki sátt við íslenska ríkið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og íslenska ríkið hefur ekki viðurkennt brot á mannréttindasáttmála Evrópu í hans tilviki. Eins og áður segir fengu þessir meðákærðu mál sín endurupptekin með úrskurðum Endurupptökudóms án þess að efnisleg skoðun hefði farið fram á mögulegum galla á málsmeðferð fyrir Hæstarétti vegna afstöðu ríkisins í sáttinni og kröfugerðar ríkissaksóknara fyrir dóminum,“ segir í úrskurði endurupptökudóms. 

Endurupptökudómur féllst ekki á að fram væru komin ný gögn eða upplýsingar sem ætla mætti að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu máls Steingríms ef gögnin eða upplýsingarnar hefðu komið fram áður en dómur gekk. Þá var ekki fallist á að verulegar líkur hefðu verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hans hefðu verið rangt metin svo að áhrif hefðu haft á niðurstöðu þess. Loks var ekki fallist á að verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins þannig að áhrif hefði haft á niðurstöðu þess.

mbl.is