Markaðssetning Íslands ömurleg

Ökumaður jeppans endaði á að festa sig rækilega í fjörunni …
Ökumaður jeppans endaði á að festa sig rækilega í fjörunni við Kleifarvatn. Skjáskot

Ömurlegt er að Ísland sé markaðssett sem land þar sem má gera það sem er bannað annars staðar. Þetta segir Andrés Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslunnar, um myndband frá reynsluakstri á Land Rover-jeppa hér á landi sem sýnir grófan utanvegaakstur við Kleifarvatn.

Í myndbandinu sem birtist á vef breska blaðsins The Sunday Times á sunnudag sést hvernig Land Rover Discovery-jeppa er ekið utan vegar í nágrenni Kleifarvatns. Á endanum festir ökumaðurinn sig í sandfjörunni við vatnið þannig að moka þarf bílinn upp. Myndbandið á að sýna hvernig bifreiðin ræður við íslenskar aðstæður.

Andrés segir skýrt og klárt að um ólöglegan utanvegaakstur sé að ræða sem fésektir liggi við.

„Það er hreint út sagt ömurlegt að verið sé að markaðssetja Ísland fyrir það sem aðrir banna. Að Ísland sé land þar sem allt má,“ segir hann.

Vandamálið sé ekki aðeins óupplýstir útlendingar heldur séu margir af þeim sem menn bölsótast út í vegna utanvegaaksturs á vegum íslenskra aðila, ferðaþjónustufyrirtækja og auglýsingastofa. Ísland sé skemmtilegur vettvangur fyrir bílaauglýsingar en það vilji fulloft bera við að þar sé utanvegaakstur sýndur eða gefinn til kynna. Það gefur áhorfendum þá hugmynd að hann sé leyfilegur.

Andrés telur að ferðaþjónustufyrirtæki og auglýsingastofur þurfi að móta sér skýrar siðareglur um hvað megi og hvað megi ekki í þessum efnum. Það henti ekki ferðaþjónustu framtíðarinnar að hafa Ísland allt út sporað.

„Ég held að fólk sé upp til hópa meðvitað um að þetta sé hið versta mál. Hins vegar er í einhverjum geirum, bæði hjá einstaklingum og hópum, viðhorfsleysi þegar fólk áttar sig ekki á skaðanum sem það veldur, að þetta sé bannað og varði háum sektum,“ segir hann.

Uppfært kl. 13:56: Myndbandið hefur verið fjarlægt af Youtube af notandanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert