Verði með því besta í heiminum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynnir viljayfirlýsinguna á blaðamannafundinum í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynnir viljayfirlýsinguna á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Golli

Kjarasamningar lækna eru enginn lokapunktur heldur miklu fremur áfangi í enn stærra sameiginlegu verkefni stjórnvalda og lækna sem miðar að endurreisn íslensks heilbrigðiskerfis og að gera það í stakk búið til þess að keppa við heilbrigðisþjónustu hvar sem er í heiminum.

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á blaðamannafundi í dag þar sem hann kynnti sameiginlega viljayfirlýsingu lækna og stjórnvalda í þeim efnum. Viljayfirlýsingin tæki til ýmissa þátta málsins. Þar á meðal innviða og starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og þjónustu við almenning í landinu. Yfirlýsingin fæli í sér „staðfestingu á vilja ríkisstjórnarinnar til að leggja verulega áherslu á endurreisn uppbyggingar íslensks heilbrigðiskerfis þannig að það verði með því sem best gerist í heiminum í framhaldinu.“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tók einnig til máls og sagði að viljayfirlýsingin sneri meðal annars að því „að styrkja umgjörð fyrir læknastéttina í landinu, meðal annars til að geta mætt þeim kröfum sem uppi hafa verið í mjög langan tíma. Þetta snýr líka að því að auka í rauninni þátttöku fagstétta í heilbrigðisþjónustunni og aðkomu að stefnumótun stjórnvalda á sviði heilbrigðismála.“

Frétt mbl.is: Samstaða um að efla heilbrigðiskerfið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert