Gengur vel að endurheimta landgæði

Magnea Magnúsdóttir, landgræðslustjóri Orku náttúrunnar.
Magnea Magnúsdóttir, landgræðslustjóri Orku náttúrunnar. mbl.is/Golli

Orka náttúrunnar, ON, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, hefur náð eftirtektarverðum árangri við að endurheimta fyrri landgæði eftir framkvæmdir. Þau mál heyra undir Magneu Magnúsdóttur, landgræðslustjóra fyrirtækisins, sem segir fleiri fyrirtæki geta tekið ON sér til fyrirmyndar. 

„Hér er ekki bara áhugi, heldur líka vilji til að gera vel í þessum efnum og það var algjör draumur fyrir mig að fá starf þar sem menntun mín nýtist svona vel," segir Magnea sem er með meistaragráðu í landgræðslufræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. „Hér er ég með stóran leikvöll til að þróa mínar aðferðir. Það er þörf fyrir fólk með þessa menntun og þekkingu enda er Ísland mjög raskað land. Bæði eftir beitarálag, framkvæmdir og ferðamenn. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að gera okkur grein fyrir því að við eigum ekki endalausa villta náttúru. Við þurfum að passa upp á hana.“

Spurð um brýn verkefni segir hún að breyta þurfi nálguninni við uppgræðslu og frágang gróðurs vegna framkvæmda. Grasfræ hafi langmest verið notuð til þessa. „Aðallega hafa verið notaðar fræblöndur erlendra grasfræja sem dreift hefur verið. Það þýðir að náttúrulegur gróður svæðanna er ekki alltaf endurheimtur. Möguleikarnir eru mun fleiri og þekkingin stöðugt að aukast. Dæmi um aðferðir til að endurheimta náttúrlegan gróður eru fræslægja, mosadreifing og flutningur á gróðurtorfum. Þegar byrjað er á framkvæmdum er allur gróðurinn til staðar, þetta er bara spurning um að halda upp á hann. Taka hann til hliðar og geyma svo hægt sé að setja hann aftur yfir þegar framkvæmdum er lokið. Orku náttúrunnar hefur verið dugleg við þetta og á allskyns gróður og undirlag á lager. Eins og hraun og mosa.“ 

Nánar er rætt við Magneu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Lagersvæði á Hellisheiði í september 2012 og svo árið 2014, …
Lagersvæði á Hellisheiði í september 2012 og svo árið 2014, ári eftir að fræslægju af Hellisheiði var dreift yfir. mbl.is
mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert