Öll skip eiga að skarta skeggi 

Frá afhjúpun mottunnar.
Frá afhjúpun mottunnar.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hvetja sjávarútvegsfyrirtæki til að skreyta skip sín og starfsstöðvar með yfirvaraskeggi í tilefni Mottumars, árvekniátaks Krabbameinsfélagsins. Hönnuð hefur verið sérstök skipsmotta sem hægt er að sækja endurgjaldslaust með því að smella hér.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Jens Garðar Helgason, formaður samtakanna, afhjúpuðu í gær forláta yfirvaraskegg á ísfisktogaranum Helgu Maríu frá HB Granda á blaðamannafundi sem haldinn var í brú skipsins þegar Mottumars var formlega ýtt úr vör.

Í fréttatillkynningu frá samtökunum kemur fram að í sjávarútvegi starfa um 9.000 manns með beinum hætt. Með samstarfinu við Mottumars er meðal annars markmiðið að koma fræðslu til þessa hóps betur til skila. „Það er mikilvægt að þessir menn sem sjaldan eru heima gleymi ekki sjálfum sér,“ sagði Jens við athöfnina í gær.

„Við hvetjum (..) sjávarútvegsfyrirtæki og aðra sem vilja sýna málefninu stuðning með því að safna yfirvaraskeggi, [til að] setja mottu á skip sín og starfsstöðvar. Hægt er að nota meðfylgjandi mót til skreytinganna en ekki er verra að leyfa hæfileikamönnum í fyrirtækjunum að láta ljós sitt skína og leyfa hugarfluginu að ráða útliti mottunnar,“ segir í fréttatilkynningunni.

Vitanlega er algjör skylda að birta myndir af skreytingunum á samfélagsmiðlum merktum #mottumars

mbl.is