Eignuðust barn með hjálp staðgöngumóður

Barnið kom í heiminn í eldhúsi hjónanna í íbúð hér …
Barnið kom í heiminn í eldhúsi hjónanna í íbúð hér á landi. Jim Smart

Tveir samkynhneigðir karlmenn, hjón búsett hér á landi, eignuðust barn með hjálp staðgöngumóður í eldhúsinu heima hjá sér í íbúð hér á landi. Konan er búsett erlendis og fóru mennirnir tvisvar út til hennar þar sem þau gerðu tilraun til að gera hana ófríska. Það tókst í fyrstu tilraun í bæði skipti en í hún missti fóstur eftir fyrra skiptið.

Þetta kom fram í þætti Stöðvar 2, Íslandi í dag, í kvöld.

Í dag er annar maðurinn með forræði yfir drengnum og ætla hjónin að sækja um stjúpættleiðingu þannig að þeir verði báðir foreldrar barnsins. Maðurinn fór ásamt konunni til sýslumanns til að gera samning um forsjá en í kjölfarið kom barnasálfræðingur heim til hjónanna. Tilefni þótti til að gera skoðun á heimilishögum drengsins.

Í skýrslu sem sálfræðingurinn skilaði frá sér eftir heimsóknina kemur fram að hann gruni að þarna hafi verið framinn glæpur. Hjónin hafa ekki heyrt meira um framgang málsins.

Í viðtalinu við hjónin kom fram að konan vildi ekki fara í tæknisæðingu heldur kaus hún að þau myndu sjálf framkalla sæðingu heima hjá henni. Hún hafði sjálf eignast fjögur börn og vildi láta gott af sér leiða en þá er faðir hennar einnig samkynhneigður líkt og hjónin.

Þeir segjast vissulega hafi verið stressaðir um að hún myndi hætta við, en ákváðu að taka áhættuna. Konan átti barnið í sundlaug í eldhúsi hjónanna og var nánasta fjölskylda viðstödd, í heildina fimmtán manns. Hjónin borguðu konunni ekkert, hvorki fyrir meðgönguna né ferðalög og segja þeir að hún hafi alltaf leitt talið að öðru þegar þeir vildu ræða greiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert