Hópur staðgöngumæðra í varðhaldi

Staðgöngumæðurnar voru leiddar fyrir dómara í dag.
Staðgöngumæðurnar voru leiddar fyrir dómara í dag. AFP

Yfirvöld í Kambódíu hafa ákært 33 staðgöngumæður sem greitt var fyrir að ganga með börn fyrir kínversk pör. Konurnar hafa verið ákærðar fyrir mansal og dómstóll í landinu neitaði þeim í dag um lausn úr varðhaldi gegn tryggingargjaldi. Konurnar eiga allt að tuttugu ára fangelsisdóm yfir höfði sér. 

Konurnar, sem margar hverjar eru óléttar, fundust í húsleit lögregluyfirvalda í Phnom Penh í síðasta mánuði. Fimm manns, m.a. Kínverji, höfðu þá þegar verið handteknir og ákærðir vegna gruns um mansal.

Upplýsingafulltrúi héraðsdómsins í Phnom Penh segir að konurnar muni vera í haldi þar til rannsókn málsins og réttarhöldum yfir þeim lýkur.

Tilslökun var gerð á kínverskum lögum fyrir tveimur árum sem þýðir að 90 milljónir kvenna þar í landi mega nú eiga fleiri en eitt barn. En staðgöngumæðrun er ólögleg í Kína og því hafa Kínverjar leitað út fyrir landsteinana eftir slíku.

Umfangsmikil starfsemi 

Staðgöngumæðrun hefur lengi verið umfangsmikil í Suðaustur-Asíu og þangað hafa útlendingar leitað í stórum stíl. Kostnaður við heilbrigðisþjónustu er lágur og þar býr fjöldi ungra og fátækra kvenna sem tilbúnar eru að ganga með börn annarra gegn greiðslu. Að auki hafa lög í þessum löndum ekki hindrað samkynhneigð pör eða einstæða foreldra í að nýta sér staðgöngumæðrun. 

En á síðustu árum hefur þetta breyst og lög verið sett í mörgum landanna á svæðinu sem miða að því að takmarka eða banna viðskipti sem þessi. Hefur það m.a. verið gert eftir að upp hefur komist um fjölda mála þar sem fátækar konur hafa verið misnotaðar í þessu skyni. 

Stjórnvöld í Kambódíu bönnuðu staðgöngumæðrun árið 2016. Þá hafði holskefla útlendinga keypt sér staðgöngumæðrun þar eftir að stjórnvöld á Taílandi tóku fyrir það árið áður. 

Í janúar var staðfestur átján ára fangelsisdómur yfir áströlskum hjúkrunarfræðingi sem hafði rekið miðstöð staðgöngumæðra í Kambódíu. Málið vakti heimsathygli og mikla umræðu um siðferði þess að íbúar ríkari þjóða heims greiði konum í fátækum löndum fyrir að ganga með börn fyrir sig.

mbl.is