Fullt í gistiskýlinu nótt eftir nótt

Gistiskýlið við Lindargötu 48.
Gistiskýlið við Lindargötu 48. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðustu vikur hefur verið mikil aðsókn í gistiskýlið við Lindargötu sem er fyrir heimilislausa reykvíska karlmenn. Svefnpláss fyrir tuttugu manns er í gistiskýlinu en hægt er að bæta við dýnum til þess að hýsa níu karlmenn í viðbót. Síðustu vikur hafa þessi 29 pláss verið full og starfsmenn gistiskýlisins neyðst til þess að vísa mönnum frá.

Forstöðumaður gistiskýlisins, Sveinn Allan Morthens segir að það sé erfitt að meta hvað það er sem veldur þessari miklu aðsókn.

„Það er fullt núna nótt eftir nótt og við höfum þurft að vísa frá í sumum tilfellum. Ég veit ekki hvort þetta sé tímabundið eða hvort þörfin sé að verða meiri,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is.

Sveinn segir að það myndi kosta mikla vinnu að bæta við svefnplássi í gistiskýlinu en það var opnað á Lindargötu í október. Áður var það til húsa í Farsóttarhúsinu við Þingholtsstræti.

„En menn eru alltaf tilbúnir til að endurskoða alla hluti og kannski verður hægt að bjóða upp á fleiri svefnpláss á næstu árum. Ég veit að borgarráð hefur tekið ákvörðun um mjög flotta og vandaða stefnu í málum utangarðsmanna. En á meðan þetta er svona reynum við að mæta þessari þörf eins og við mögulega getum.“

Almennt meira að gera á sumrin

Að sögn Kristínar Helgu Guðmundsdóttur, verkefnastjóra Konukots, sem er næturathvarf fyrir heimilislausar konur, er almennt meira að gera þar á sumrin heldur en á veturna og mest í júlímánuði. „Ein möguleg ástæða fyrir þessari aðsókn er sú að allir hreyfa sig mest þegar það er gott veður og það er meiri hreyfing almennt meðal kvennanna. En fólk getur auðveldlega ímyndað sér að þetta sé öfugt.“

Kristín segir að síðustu daga sé búin að vera töluverð aðsókn í Konukot þó ekki hafi komið til þess að fólki sé vísað frá. „Við erum með átta svefnpláss en stundum eru fleiri í húsinu. Sumt fólk kemur og er ekki allan tímann sem opið er. Við tökum á móti kannski svona tíu manns yfir sólarhringinn og höfum náð að anna því ágætlega. Við höfum allavega aldrei þurft að vísa frá.“

Kristín Helga Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri Konukots.
Kristín Helga Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri Konukots. Heiðar Kristjánsson
mbl.is