Ísland af lista yfir umsóknarríki

AFP

Evrópusambandið hefur tekið Ísland af lista sínum yfir umsóknarríki að sambandinu samkvæmt vefsíðu þess. Þar er Ísland ekki lengur á meðal þeirra ríkja sem sótt hafa um inngöngu í Evrópusambandið. 

Ríkisstjórnin tilkynnti Evrópusambandinu um miðjan mars á þessu ári að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki og fór fram á það að landið yrði tekið af lista sambandsins yfir slík ríki. Svar barst fyrir rúmum mánuði síðan frá Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands sem fer með forsætið innan Evrópusambandsins, þess efnis að yrði tillit til óska ríkisstjórnarinnar og gerðar ákveðnar breytingar á verklagi sambandsins vegna þeirra.

Klemens Ólafur Þrastarson, upplýsingafulltrúi sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi, segir í samtali við mbl.is að sú ákvörðun að taka Ísland af listanum hluti af aðgerðum sambandsins til þess að koma til móts við óskir ríkisstjórnarinnar. Ákvörðunin hafi verið samþykkt á vettvangi ráðherraráðs Evrópusambandsins. Áður hafði sambandið ákveðið að hætta að bjóða fulltrúum Íslands á fundi sem ætlaðir voru umsóknarríkjum.

Skjáskot
mbl.is