Gleymdu sorginni tímabundið

Hér má sjá Anil afhenda þorpsbúum neyðargögn.
Hér má sjá Anil afhenda þorpsbúum neyðargögn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þegar  jarðskálfti upp á 7,8 stig skók Nepal, heimaland Anil Thapa, tölvunarfræðings hjá Háskóla Íslands, í apríl vissi hann ekki hvað hann átti að gera. Hann náði ekki sambandi við móður sína eða systur og sat skelfingu lostinn fyrir framan sjónvarpið.

„Ég var eyðilagður,“ segir Anil í samtali við mbl.is. „Ég sat fyrir framan sjónvarpið og fylgdist með fréttum. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera.“

Anil hefur búið á Íslandi í tíu ár. Hann er giftur íslenskri konu og á með henni tvö börn. Anil starfar hjá Reiknistofnun Háskóla Íslands og The Noridc High performance computing center og er eins og fyrr hefur komið fram, tölvunarfræðingur. Dagana eftir að skjálftinn reið yfir var hann áhyggjufullur vegna ástandsins í heimalandinu og vildi fara þangað sem fyrst til þess að hjálpa samlöndum sínum.

„En ég gerði mér síðan grein fyrir því að það var voða lítið sem ég gat gert á þeim tímapunkti. Ég spurði sjálfan mig, hvaða þekkingu hef ég? Ég er ekki læknir, ég er ekki björgunarsveitarmaður. Þá ákvað ég að best væri að safna peningum til styrktar fórnarlamba skjálftans og það gerði ég í samstarfi við samstarfsfélaga mína,“ segir Anil. 

Stofnuðu opinbert góðgerðarfélag

Eftir að hafa rætt við aðra starfsmenn HÍ söfnuðust nokkrir saman og funduðu um hvað væri hægt að gera fyrir fólkið í Nepal. Ákveðið var að skipuleggja söfnunarviðburði, stofna opinbert góðgerðarfélag og hjálpa þannig til. Þau stofnuðu félagið EVSN.org hófust handa. Haldnir voru viðburðir í samstarfi við háskólann, m.a. grillveisla þar sem peningum var safnað.

Kristín Ingólfsdóttir, þáverandi rektor HÍ, tók þátt í viðburðinum ásamt Jóni Atla Benediktssyni, þáverandi aðstoðarrektor. Anil er þeim þakklátur fyrir þeirra stuðning og öðrum starfsmönnum HÍ.

Þar að auki aðstoðuðu starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar við söfnunina. „Við söfnuðum ekki nógu miklum peningum hér þannigað  ég hafði samband við mömmu mína, systur og vini úti í Nepal og í sameiningu safnaðist nóg,“ segir Anil.

Sjö sjálfboðaliðar starfa með EVSN í Kathmandu, höfuðborg Nepals. Að sögn Anil samanstendur sá hópur af allskonar fólki, viðskiptamönnum, háskólakennurum og félagsráðgjöfum. Ákveðið var að ferðast til Dhaging-héraðs en þau höfðu heyrt af þorpi þar sem neyðaraðstoð hafði ekki borist. Þorpið heitir Borang og búa um þúsund manns þar.

Þurftu að ganga í sjö klukkustundir

Anil komst til Kathmandu 30. maí, rúmum mánuði eftir jarðskjálftann. Þar hitti hann teymisfélaga sína og var förin skipulögð. 12. júní hélt hópurinn af stað til Borang en þar ætluðu þau að vera í fimm daga.

„Þorpið er mjög einangrað og í næstum því 100 kílómetra fjarlægð frá Kathmandu,“ útskýrir Anil en leiðin var seinfær og hættuleg og tók tvo daga. Hópurinn keyrði lengstan hluta leiðarinnar en síðasta spölinn þurfti að ganga í sjö klukkustundir í erfiðum aðstæðum. Aurskriður höfðu fallið nýlega á svæðinu. „50 þorpsbúar komu og hittu okkur og gengu með okkur og báru neyðarvistirniar með okkur. Ég dáðist að hugrekki þeirra, styrk og einbeitni,“ segir hann.

Teymið færði þorpsbúum m.a. 300 álbreiður, 100 tjöld, 100 teppi, 100 dýnur og ýmsan læknisbúnað en heilsugæsla þorpsins hrundi í skjálftanum. Þar að auki byggði teymið tvö salerni og tíu tímabundin skýli til þess að nota sem kennslustofur fyrir börn.

„Þetta var ekki mikið en þetta færði þeim að minnsta kosti einhverja hamingju,“ segir Anil. „Þorpið er í hræðilegu ástandi eftir skjálftann og næstum því öll hús í þorpinu hrundu, þar á meðal skólinn og heilsugæslan.“ Þar að auki létu sjö börn lífið í skjálftanum en 99 þorpsbúar létu lífið í aurskriðum sem komu í kjölfarið.

Sumir misstu ekkert, sumir misstu allt

Eins og áður  hefur komið fram á Anil fjölskyldu í Nepal. Þau eru öll örugg og skemmdist hús móður hans lítillega í skjálftanum en hún býr í Kathmandu. Anil segir að ástandið í borginni sé mun betra en í þorpunum þar fyrir utan. „En auðvitað er ástandið slæmt þar líka, fólk missti ættingja sína og vini og húsin sín. Sumir misstu allt á meðan sumir misstu ekkert.“

Anil var í Nepal í tuttugu daga. Hann segir að það hafi verið gífurlega góð tilfinning að komast heim til Íslands. „Það var frábært að komast heim. Nú er ég öruggur. En á sama tíma er ég mjög glaður að ég gat hjálpað þessu fólki,“ segir hann.

„Það sem við gerðum var bara dropi í hafið en ég lagði mitt af mörkum í þessu þorpi. Ég sá fólkið brosa. Enginn hafði komið til þorpsins til þess að hjálpa áður en við komum. Fólkið var svo ánægt og gleymdi sorg sinni tímabundið.“

Vilja reisa heilsugæslu í þorpinu

Starf Anils í þorpinu hefur hvatt hann til þess að gera meira fyrir heimaland sitt. „Núna er engin heilsugæsla í þorpinu. Fólk þarf að ganga í sjö tíma í næsta þorp til þess að fá einhverja læknisaðstoð. Þannig að við viljum safna peningum til þess að byggja litla heilsugæslu og það er okkar næsta markmið.“

Hægt er að leggja samtökunum lið hér. 

Að mati Anils mun það taka mörg ár að byggja Nepal upp að nýju. „Ég held að það muni taka mörg ár að byggja allt upp og gleyma þessari sorg,“ segir hann.

Næstum því öll hús í þorpinu skemmdust í skjálftanum.
Næstum því öll hús í þorpinu skemmdust í skjálftanum. Ljósmynd úr einkasafni
Þorpsbúar aðstoðuðu við að bera neyðarbirgðirnar.
Þorpsbúar aðstoðuðu við að bera neyðarbirgðirnar. Ljósmynd úr einkasafni
Eyðileggingin er gífurleg.
Eyðileggingin er gífurleg. Ljósmynd úr einkasafni
Teymið reisti m.a .skýli til þess að nota undir kennslu …
Teymið reisti m.a .skýli til þess að nota undir kennslu og salerni. Ljósmynd úr einkasafni
Börn sem búa í þorpinu fylgjast með.
Börn sem búa í þorpinu fylgjast með. Ljósmynd úr einkasafni
„Þetta var ekki mikið en þetta færði þeim að minnsta …
„Þetta var ekki mikið en þetta færði þeim að minnsta kosti einhverja hamingju,“ segir Anil. Ljósmynd úr einkasafni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert