Rigning hefur lítil áhrif á Gleðigönguna

Gleðigangan er ár hvert einn af stærstu viðburðunum í Reykjavík.
Gleðigangan er ár hvert einn af stærstu viðburðunum í Reykjavík. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Gleðigangan, hápunktur Hinsegin daga, hefst klukkan 14 í dag og eru þeir sem ætla að ganga gönguna á fullu að gera sig tilbúna.

„Við erum hérna mætt hjá BSÍ, allt í fullum gangi. Atriðin eru að stilla sér upp og allir að gera sig klára,“ segir Ásta Kristín Benediktsdóttir, ritari Hinsegin daga og formaður göngustjórnar í samtali við mbl.is.

Að sögn Ástu taka 38 atriði þátt í göngunni í ár og er því ljóst að gangan er í stærri kantinum.

Aðspurð um veðrið segir Ásta að það sé rigning á svæðinu en hópurinn er bjartsýnn á að það hafi ekki áhrif. „Það er rigning en hún mun hætta,“ segir Ásta og hlær en bætir við að það muni ekki hafa mikil áhrif á gönguna haldi rigningin áfram. „Ég held að fólk sé vel undirbúið og svo er nóg til af regnhlífum. Fólk bara splæsir í þær og býr sig vel, þá er þetta allt í lagi.“

Eins og fram hefur komið hefst gangan klukkan 14 og fer hún af stað frá BSÍ.

Heimasíða Hinsegin daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert