Erfiðara að ná í ólöglegt efni á netinu

Hérlend rétthafasamtök, STEF, SFH, SÍK og FRÍSK, hafa náð samkomulagi við helstu fjarskiptafyrirtæki landsins um framkvæmd lögbanns sem héraðsdómur úrskurðaði í fyrra að lagt skyldi á veitingu aðgangs að vefsíðunum deildu.net og the Piratebay. Vefsíðurnar deildu afþreyingarefni til notenda sinna.

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, segir að aðgerðirnar sem rétthafar fóru í hafi skilað tilætluðum árangri. Umferð frá Íslandi um vefsíðuna the Piratebay hafi minnkað verulega í kjölfar áðurnefnds lögbanns. Aðgerðirnar hafi verið aftur á móti verið dýrar og tekið of langan tíma. Hún kallar eftir lagabreytingu hér á landi.

„Það er erfitt að útrýma þessum brotum en við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur og ná þeim sem eru umfangsmestir á þessu sviði. Helst vildum við fá breytingar á löggjöf til að gera þetta auðveldara. Þetta ferli var of langt og of kostnaðarsamt og vernda þessi réttindi ekki nægilega vel,“ segir Guðrún Björk.

Hún segir að horfa megi til Noregs í þessum efnum, en þar hafi nýlega verið sett löggjöf um lokun á aðgengi að vefsíðum sem settar eru upp til að dreifa höfundaréttarvörðu efnis án leyfis.

„Við vildum sjá þannig hér á Íslandi,“ segir Guðrún Björk.

Í byrjun september féll í héraðsdómi í Ósló í Noregi fyrsta dómsmálið eftir að sett voru sérstök lög um lokun á aðgengi að vefsíðum sem settar eru upp til að dreifa höfundaréttarvörðu efnis án leyfis. Samtök rétthafa í Noregi fóru með sigur af hólmi í málinu og var í dómnum öllum átta stærstu fjarskiptafyrirtækjum Noregs gert að loka aðgangi að sjö vefsíðum í fimm ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert