Viku „freklega“ frá kröfum

Sigurjón Árnason, fv. bankastjóri Landsbankans.
Sigurjón Árnason, fv. bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Sigurjón Þ. Árnason og Elín Sigfúsdóttir hlutu að gera sér grein fyrir að þau viku freklega frá því sem krafðist var af störfum þeirra fyrir bankann þegar þau veittu félaginu Imon lán fyrir hlutabréfum í bankanum. Þetta er mat Hæstaréttar í dómi sem hann felldi yfir þeim í dag. 

Hæstirétt­ur dæmdi Sig­ur­jón Þ. Árna­son, fv. bankastjóra Landsbankans, í þriggja ára og sex mánaða fang­elsi í dag, en hann hafði áður verið sýknaður í héraðsdómi. Sig­ríður Elín Sig­fús­dótt­ir, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans, var einnig sak­felld og dæmd í 18 mánaða fang­elsi.

Í mál­inu voru Sig­ur­jón Þ. Árna­son, fyrr­ver­andi banka­stjóri Lands­bank­ans, Sig­ríður Elín Sig­fús­dótt­ir og Steinþór Gunn­ars­son, fv. forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, ákærð, ým­ist fyr­ir umboðssvik eða markaðsmis­notk­un. Imon-málið sem svo er kallað tengd­ist sölu Lands­bank­ans á eig­in bréf­um til tveggja eign­ar­halds­fé­laga í lok sept­em­ber og byrj­un októ­ber árið 2008. Fé­lög­in tvö voru Imon ehf. og Aza­lea Resources Ltd.

Sig­ur­jón og Sig­ríður Elín voru sýknuð í héraði en Steinþór dæmd­ur í 9 mánaða fang­elsi, þar sem sex mánuðir voru skil­orðsbundn­ir. Hæstirétt­ur dæmdi Steinþór hins veg­ar til að sitja all­an tím­ann óskil­orðsbundið.

Veð á alls ónothæfum grunni

Hæstiréttur hafnaði kröfum sakborninga um að málinu yrði vísað frá vegna vanhæfis forstjóra Fjármálaeftirlitsins og að málsmeðferðin þeirra hafi ekki samræmst stjórnarskrá.

Talið var að Sigurjón og Elín hefðu hlotið að gera sér grein fyrir að með því að veita Imon ehf. lán gegn tryggingum, sem metnar höfðu verið til verðs á alls ónothæfum grunni og voru að auki langt frá því sem almennt skyldi miða við samkvæmt útlánareglum Landsbankans, væru þau, við þær aðstæður sem ríktu á fjármála- og verðbréfamörkuðum, að víkja á freklegan hátt frá því sem af þeim var krafist í störfum þeirra fyrir bankann.

Með því móti hefðu þau misnotað aðstöðu sína hjá Landsbankanum sem hefði valdið því að félagið varð bundið við þessar ráðstafanir fjármuna og leiddu þær til verulegrar fjártjónshættu fyrir bankann, en líta yrði svo á að fjármunirnir væru félaginu nú glataðir. 

Þá var Sigurjón jafnframt sakfelldur vegna framangreindra viðskipta þar sem hann hafði, sem annar af bankastjórum Landsbankans, yfirsýn yfir hin umfangsmiklu kaup bankans á eigin hlutabréfum, auk þess sem hann tók ásamt Elínu ákvörðunina um að veita Imon ehf. fyrrgreint lán 30. september 2008.

Sigurjón sýknaður af ákæru um viðskiptin við Azalea

 Elín var á hinn bóginn einungis sakfelld fyrir hlutdeild í umræddu broti þar sem hún kom hvorki að sölu hlutabréfanna né tilkynningu um hana til Kauphallar Íslands. Með sömu rökum og að framan greinir var Sigurjón jafnframt sakfelldur fyrir þátt sinn við sölu hlutabréfanna til Imon ehf. 3. október 2008, en sýknaður vegna viðskiptanna við Aza­lea Resources Ltd sama dag þar sem óvíst var talið hver hefði tekið ákvörðun um þau af hálfu Landsbankans.

Loks var Steinþór sakfelldur fyrir að hafa sem miðlari viðskiptanna við Imon ehf. og Aza­lea Resources Ltd. 3. október 2008 tilkynnt þau til Kauphallar Íslands þrátt fyrir vitneskju um að kaupin yrðu fjármögnuð að fullu með láni frá Landsbankanum án frekari trygginga fyrir láninu en með veði í bréfunum sjálfum. Hlaut honum því að hafa verið ljóst að markaðsáhættan af viðskiptunum héldist áfram hjá bankanum. 

mbl.is