Víða vantar vegasalerni

mbl.is/Eggert

Vegagerðin hefur umsjón með 186 áningarstöðum víðsvegar um landið fyrir akandi vegfarendur. Tilgangur þeirra er að ferðamenn geti á þægilegan og öruggan hátt staldrað við, notið náttúrunnar og skoðað áhugaverða staði. Aðbúnaður á áningarstöðunum eru hins vegar mismunandi. Sum staðar eru borð og bekkir og víða skilti með þjónustuupplýsingum og fróðleik um sögu næsta umhverfis. Hins vegar er salernisaðstaða á áningarstöðum ekki á vegum Vegagerðarinnar.

Þetta kom fram í máli Ragnhildar Gunnarsdóttur, umhverfisverkfræðings hjá Eflu, á rannssóknaráðstefnu Vegagerðarinar sem fram hefur farið í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í dag. Þar hafa verið kynnt verkefni sem fengið hafa styrk frá Vegagerðinni. Verkefni Ragnhildar snýr að kortlagningu þarfar fyrir salernisaðstöðu meðfram þjóðvegum Íslands og staða þessara mála í nágrannalöndunum. Benti hún á að hér á landi væri salernisaðstaða meðfram þjóðvegum einkum að finna á matsölustöðum, söluturnum, ferðamannastöðum o.s.frv.

Rekstraraðilar þessara staða geti í sumum tilfellum séð ákveðinn hag í því að ferðamenn nýti sér salernisaðstöðu sem tilheyrir rekstri þeirra. Þannig megi líta á slíka staði sem hluta af vegasalernum við þjóðvegi landsins. Hins vegar verði að hafa í huga í því sambandi að salernisaðstaða slíkra staða er allajafna ekki opin á nóttunni og opnunartími þeirra geti einnig verið árstíðarbundinn, til að mynda lokað yfir vetrartímann, og því vissum annmörkum háð að skilgreina þá sem vegasalerni.

Samkvæmt rannsókninni er nauðsynlegt að tryggja aðgengi að vegasalernum við þjóðvegi landsins með jöfnu millibili allt árið og allan sólarhringinn. Vegalög kveði á um að Vegagerðin eigi meðal annars að sinna þjónustu við vegi en óljóst hvort rekstur vegasalerna falli þar undir. Víða erlendis sé umsjón salerna meðfram þjóðvegum á ábyrgð umsjónaraðila vegagerðar og oftar en ekki fyrir hendi staðlar með leiðbeiningum um æskilega lágmarks fjarlægð á milli salernisaðstöðu.

Markmið verkefnisins er að leggja áherslu á að kortleggja þörf fyrir fjölgun vegasalerna við þjóðvegi landsins og þeir staðir skilgreindir þar sem talin er hvað brýnust þörf fyrir slíka aðstöðu miðað við væntanlegt umferðarálag komandi ára. Einnig að leggja fram tillögur að vali á salernislausnum og útbúa yfirlitskort sem sýni á myndrænan hátt tillögur að staðsetningu nýrra sem núverandi vegasalerna.

Fréttir mbl.is:

Tíu ár í alsjálfvirka bíla

Tækifæri frekar en kvöð

Kaupstaðurinn varð rústir einar

mbl.is