Segir starfsfólk gert að blóraböggli

Að óbreyttu hefst verkfall starfsmanna álversins í Straumsvík 2. desember.
Að óbreyttu hefst verkfall starfsmanna álversins í Straumsvík 2. desember. mbl.is/Ómar

Ekki er sjálfgefið að álverið í Straumsvík opni aftur verði því lokað við verkfall starfsmanna sem á að hefjast 2. desember, að sögn talsmanns álversins. Verði sú raunin er fyrirtækið að nota starfsfólk og verkalýðfélög að blóraböggli fyrir lokun þess, að sögn talsmanns starfsmanna álversins.

Ef af verkfalli starfsmanna álversins í Straumsvík verður munu þeir hjálpa til við að loka því til að lágmarka tjón í tvær vikur. Verkfallið hefst 2. desember ef ekki hefur samist en næst verður fundað á þriðjudag.

Ákvæði í kjarasamningi starfsmanna álversins gerir ráð fyrir að fyrirtækið hafi aðgengi að starfsmönnum í tvær vikur eftir að verkfall hefst til að lágmarka tjón þegar slökkt verður á 480 kerjum álversins. Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður Rio Tinto Alcan á Íslandi, segir hins vegar meiriháttar mál að kveikja aftur á kerjunum. Ekki sé sjálfgefið að kveikt verði á þeim yfir höfuð aftur.

„Það verður bara að koma í ljós. Okkar verkefni er að reyna að koma í veg fyrir þetta og vonast til að reyna að ná samningum,“ segir Ólafur Teitur.

Aukin verktaka forgangsatriði

Næsti samningafundur er fyrirhugaður á þriðjudag en fram að þessu hefur strandað á kröfu Rio Tinto Alcan um auknar heimildir til að bjóða út verk til þjónustufyrirtækja. Ólafur Teitur segir að fyrirtækið sitji ekki við sama borð og öll önnur fyrirtæki á Íslandi í þeim efnum.

Spurður að því hvort að fyrirtækið muni ekki slaka neitt á þessari kröfu þegar svo mikið sé í húfi segir Ólafur Teitur að þetta hafi verið forgangsatriði af hálfu Alcan en að öðru leyti taldi hann ekki rétt að fyrirtækið tjáði sig um afstöðu sína í samningaviðræðunum í fjölmiðlum.

Stendur ekki og fellur með kjörum þeirra lægst launuðu

Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna álversins, segir mál númer 1,2 og 3 að skapa þrýsting til að ná samningi áður en verkfall á að hefjast. Hann bendir á að fyrirtækið hafið samið við millistjórnendur og ekki gert neinar kröfur um að þeir gefi neitt eftir í sínum störfum eins og þær sem settar hafi verið fram gagnvart almennum starfsmönnum. Þá hafi æðstu stjórnendur fengið launahækkun strax við upphaf ársins.

„Við trúum ekki öðru en að almennir starfsmenn njóti sömu aðstöðu og aðrir launamenn í samfélaginu til þess að fá sambærilegar launahækkanir. Við höfum gert sambærilegar kröfur og aðrir launþegar í landinu. Það hafa engir launþegar verið að selja sín störf frá sér til að ná kjarasamningi eins og Rio Tinto gerir kröfu um við okkur,“ segir Gylfi.

Ef Rio Tinto Alcan ætli hins vegar í þá vegferð að loka álverinu núna þá sé fyrirtækið að reyna að gera launþegana og verkalýðsfélögin að blóraböggli í að loka því.

„Þá er Rio Tinto í þeirri vegferð að finna ástæðu til að loka fyrirtækinu. Við erum ekki í þeirri vegferð, það eru þá eigendur fyrirtækisins. Fyrirtækið stendur ekki og fellur með launum lægst launaða fólksins í fyrirtækinu eins og þess sem þeir vilja fara með í verktöku. Þá er vegferðin einhver önnur hjá þeim,“ segir Gylfi.

Ólafur Teitur segir Alcan til dæmis vilja bjóða út verk í mötuneyti, þvottahúsi, hliðvörslu, starfsemi á höfninni og við afleysingar í viðhaldi.

Í steypuskála álversins í Straumsvík.
Í steypuskála álversins í Straumsvík. Morgunblaðið/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert