Annarri umræðu um fjárlögin lokið

Annarri umræðu um fjárlög næsta árs lauk nú á fjórða tímanum og var fundi frestað til klukkan 16:40. Búist er við að atkvæðagreiðsla muni hefjast síðdegis, en samkomulag náðist loks í dag á milli meiri- og minnihlutans á Alþingi um þinglok.

Samkvæmt starfsáætlun þingsins þá átti þingstörfum að ljúka 11. desember sl., en önnur umræða um fjárlögin hefur staðið yfir í hátt í 80 klukkustundir.

Gera má ráð fyrir að atkvæðagreiðslan muni standa í nokkrar klukkustundir, en ekki liggur endanlega fyrir að hún muni hefjast á eftir. 

Samfylkingin segir í tilkynningu, sem er send út að þessu tilefni, að í þá átta daga og nætur sem umræðan hafi staðið hafi flokkurinn barist fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja og að þeir verði ekki skildir eftir eins og í tillögum ríkisstjórnarinnar.

„Samfylkingin berst fyrir því að Landspítalinn fái þau framlög sem yfirstjórn hans hefur talið nauðsynleg. Verði framlög ekki hækkuð, eru það sjúklingar sem gjalda dýru verði fyrir atlögu ríkisstjórnarflokkanna gegn þjóðarsjúkrahúsinu.

Samfylkingin vill ekki að framlög til Ríkisútvarpsins verði skert heldur fái það nægjanlegar fjárveitingar til að standa undir þjónustu við almenning um allt land,“ segir í tilkynningu frá Samfylkingunni.

Þá segir, að ljóst sé að ríkisstjórnin hafi engin áform um að taka til baka svik sín við aldraða og öryrkja, né heldur að verja Landspítalann eða rétta hlut Ríkisútvarpsins. Samfylkingin segir að ríkisstjórnin hafi kastað grímunni.

„Samfylkingin mun áfram berjast fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja ásamt auknum framlögum til heilbrigðismála. Við munum nýta þau tækifæri sem gefast við umræður og atkvæðagreiðslur á Alþingi til að knýja fram afstöðu einstakra stjórnarþingmanna til þessara lykilmála,“ segir ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert